Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fim 01. ágúst 2024 14:35
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Úlfur vonar að KSÍ fari yfir störf dómarans - „Maður hefur aldrei heyrt svona"
Lengjudeildin
Úlfur er ekki sáttur við dómarann Gunnar Odd Hafliðason.
Úlfur er ekki sáttur við dómarann Gunnar Odd Hafliðason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úlfur og Sölvi Haraldsson ræða málin eftir leik í sumar.
Úlfur og Sölvi Haraldsson ræða málin eftir leik í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Oddur Hafliðason.
Gunnar Oddur Hafliðason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldvin Berndsen.
Baldvin Berndsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Júlíus Mar.
Júlíus Mar.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Viðtal við Úlf Arnar Jökulsson, þjálfara Fjölnis, sem hann veitti Fótbolta.net eftir leikinn gegn Þrótti í gær, hefur vakið mikla athygli. Úlfur sagði frá því í viðtalinu að Gunnar Oddur Hafliðason, dómari leiksins, hefði tekið tvo leikmenn Fjölnis til hliðar þegar þeir voru að hita upp fyrir leikinn.

Leikmennirnir, Baldvin Þór Berndsen og Júlíus Mar Júlíusson, eru miðverðir Fjölnis.

„Það er búið að stimpla okkur áður en að leikurinn byrjar. hafsentarnir mínir tveir eru teknir afsíðis í upphitun af dómaranum. Truflar þá í upphitun til að segja við þá að hann sé búinn að heyra úr ýmsum áttum að þeir séu búnir að klípa og toga og hann ætli að gefa þeim rautt ef hann verði vitni af því," sagði Úlfur m.a. viðtalið má nálgast hér í hlekknum fyrir neðan og í spilaranum neðst.

Lestu um leikinn: Þróttur R. 0 -  0 Fjölnir

Fótbolti.net hafði samband við Magnús Má Jónsson, dómarastjóra KSÍ, í morgun og sagði hann að málið væri í skoðun með dómurunum og ekkert væri hægt að segja meira á þeim tímapunkti.

Fótbolti.net ræddi við Úlf í dag og var hann spurður út í atburðarásina.

„Það var alveg umræða hjá okkur í teyminu um að ræða við stjórnina og hvort það þyrfti að kvarta til KSÍ. Þetta eru svo skrítin vinnubrögð, hann er bara að trufla upphitun. Ég sit á bekknum og horfi á styrktarþjálfarann stýra upphitun. Þá labbar Gunnar Oddur í átt að liðinu og ég heyri í honum kalla á Júlla og Baldvin. Styrktarþjálfarinn segir nei við hann, segir að þeir séu í upphitun, en dómarinn kallar aftur á þá að koma til sín."

„Þegar ég sé að þeir hætta upphitun og ganga til hans þá geng ég strax til hans og heyri hvað hann er að segja við þá. Ég segi strax við þá að fara hita upp og segi við Gunnar Odd að við tveir skulum bara ræða um þetta. Hann fer þá að væna þá um þetta, sé búinn að heyra það frá 2-3 aðilum, að þeir séu að klípa í menn, toga í treyjur og espa menn upp. Ég spyr hann hvort þetta sé umræða á meðal dómara en hann neitar því og segist bara hafa heyrt af þessu. Hann gat eiginlega ekki svarað því hvar hann hefði heyrt þetta."

„Svo heyri ég frá strákunum að Sölvi Haraldsson hafi verið að ræða um þetta í hlaðvarpsþættinum ykkar (laugardagsþættinum á X977). Ég velti fyrir mér hvort að dómarinn sé að hlusta á eitthvað hlaðvarp og draga einhverjar ályktanir út frá því. Það er alveg galið að koma til þeirra, trufla þá í upphitun, og fara að væna þá um þetta."


Sölvi hafði heyrt af því að miðverðir Fjölnis væru að toga og klípa í andstæðinga sína. Úr varð svo umræða um að þeim hefði tekist að ná andstæðingi sínum upp í síðasta leik þegar Hassan Jalloh, leikmaður Dalvíkur/Reynis, fékk rautt spjald. Hann fékk réttilega rautt spjald fyrir að kýla Baldvin í magann í síðasta leik.

Gunnar Sigurðsson, aðstoðarþjálfari Fjölnis, var ósáttur við Gunnar Odd.

„Hann ræddi aðeins við hann, var alls ekki sáttur að það væri verið trufla upphitinu og koma leikmönnum úr jafnvægi. Aðstoðardómarinn kemur til mín og segir að Gunni byrji leikinn á gulu spjaldi (skráður með gult á 1. mínútu) og ef hann opnar munninn í leiknum þá fær hann rautt spjald. Hann hótar honum að hann megi ekki segi neitt og búið að hóta strákunum að hann muni reka þá út af ef þeir halda áfram með þessi 'trix' sín. Þetta er bara út í hött. Þeir eru ekkert að klípa menn, þeir bara nota handleggina í varnarleiknum. Myndu dómarar fara í Gunnar Vatnhamar og Oliver Ekroth fyrir leik og vara þá við að ef þeir eru að tosa í treyjur þá verði þeir reknir af velli? Maður hefur aldrei heyrt svona. Við vorum allir steinhissa á þessu."

„Mér finnst þetta mjög skrítið. Gunnar Oddur hefði alveg getað farið til þeirra rétt fyrir leik, þegar menn eru að ganga inn á völlinn, og rætt við þá. En að kippa þeim úr upphitun, það er bara truflun á undirbúningi. Þeir komu inn í klefa og voru pínu ringlaðir: „Megum við ekki gera neitt?" Við þurftum að segja við þá að spila bara sinn leik og pæla ekkert í þessu, sögðum þeim að gleyma að þeta hafi átt sér stað. Þetta hefur alveg áhrif á þá, þetta eru tvítugir strákar."


Úlfur segir að Gunnar Oddur hafi komið til Fjölnismanna í hálfleik og beðist afsökunar, viðurkenndi að hann hefði mátt standa betur að þessu.

„Aðalpunkturinn í þessu er að dómari á ekki að trufla upphitun leikmanna og á ekki að láta orðróm lita dómgreind sína fyrir fram Þarna er hann hreinlega að mismuna leikmönnum. Þetta kom þeim úr jafnvægi og truflaði undirbúning okkar."

„Við reiknum með því að þetta verði tekið fyrir og að menn læri af þessu"
segir Úlfur.
Úlfur segir vinnubrögð Gunnars galin: Líður eins og maður sé á einhverju skilorði hérna
Útvarpsþátturinn - Gluggaslúður, Evrópa og þeir bestu í 2. deild
Athugasemdir
banner
banner
banner