„Ef þú ferð aftur, þá hef ég aldrei verið sérstaklega mikið fyrir að líta í baksýnisspegilinn og tjá mig um eitthvað sem gerðist í gær eða fyrradag," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson í útvarpsþættinum Fótbolti.net á dögunum.
Hann var þá beðinn um að fara aðeins aftur í tímann og ræða um Haugesund.
Hann var þá beðinn um að fara aðeins aftur í tímann og ræða um Haugesund.
Óskar var ráðinn þjálfari Haugesund í október 2023 en hætti þar í maí 2024. Voru það ótrúlega óvænt tíðindi þegar það gerðist.
Í norskum fjölmiðlum var fjallað um ákveðna valdabaráttu innan félagsins sem hafi orsakað uppsögn Óskars. Íslenski þjálfarinn stýrði Haugesund aðeins í sjö keppnisleikjum.
„Þetta er auðvitað stór spurning. Það var stór ákvörðun einhvern fimmtudaginn í maí að segja upp starfinu og fara burt frá þessu verkefni. Mér leið bara þannig. Mér fannst ekki allir vera að fara í sömu átt."
„Ég er þannig gerður að ef mér finnst ég vera gera hlutina algjörlega á eigin forsendum, þá geti ég alveg eins sleppt þessu," segir Óskar.
Óskar segir að það sé best að falla á eigið sverð.
„Án þess að ég lýsi nákvæmlega samskiptum í gegnum þennan tíma, þá var það þannig að mér fannst ég ekki fá þann stuðning innan úr þjálfarateyminu sem ég hefði óskað mér. Þá sagði ég bara takk fyrir mig."
Hann segir að það hafi verið tveir möguleikar í stöðunni; að brjóta upp teymið eða halda aðalþjálfaranum.
„Eftir að hafa metið þetta, þá taldi ég að þetta hafi verið best fyrir mig. Ég gat bara tekið ákvörðun út frá því hvernig mér leið. Þú flytur burtu frá fjölskyldunni og ert einangraður í litlum bæ. Það verður að vera gaman og undir lokin var gleðin að mestu leyti farin úr þessu. Ef maður miðað við þá staði sem ég hef unnið á fyrir og eftir Haugesund, þá var gleðin farin."
Óskar, sem er í dag þjálfari KR, er 100 prósent viss um að þetta hafi verið rétt ákvörðun fyrir sig.
Ég er bara ekki þar, því miður
Í þættinum talaði Óskar jafnframt um að hann sæi mesta gleði í því sem þjálfari að sjá liðið sitt þróast og þroskast. Að vera úrslitamiðaður er ekki í fyrsta sæti hjá honum og það er ekki alltaf vinsælt hjá stjórnarmönnum.
„Undirbúningstímabilið gekk frábærlega vel... og það voru allir gríðarlega jákvæðir. Við áttum marga mjög fína leiki. Í leikjunum sem við unnum vorum við kannski ekkert sérstakir en svo spiluðum við gegn Rosenborg og Molde þar sem við töpum en spilum vel. Við spilum í sjöttu umferð gegn KFUM á heimavelli. Þeir voru nýkomnir upp og ekki með mikla sögu, en þeir eru búnir að byggja lið upp á aðdáunarverðan hátt. Við töpum 1-0 á frekar lélegum grasvelli en við spilum okkar leik í 90 mínútur. Það var í þeim leik þar sem ég upplifði pínu óþolinmæði," sagði Óskar.
„Þú stendur á krossgötum, annað hvort förum við alla leið og það getur endað út í skurði, eða þá að menn gera það sem gerðist síðan eftir og menn spila með belti og axlarbönd; einblína á úrslitin í hverri umferð í staðinn fyrir að sjá lengra. Það er gott fólk þarna og þeir reyndu að gera allt sem þeir gátu fyrir mig. Ég er bara eins og ég er, og fer alla leið. Þeir héldu kannski að það væru einhverjar málamiðlanir á leiðinni. Ég er bara ekki þar, því miður. Þú verður að vita hvað þú færð þegar þú færð mig."
Myndi ekki ráðleggja neinum það
Það að Óskar hafi stigið frá borði þarna lítur kannski ekkert sérlega vel út á við ef félög út í heimi horfa til hans í framtíðinni, en Óskar er sjálfur ekkert að spá of mikið í því.
„Ég myndi ekki ráðleggja einum einasta yfirmanni fótboltamála í Evrópu að ráða mig," sagði Óskar léttur.
„Ég er eins og ég er, eins lítið úrslitamiðaður og þeir sennilega gerast. Ég upplifi mig stundum sem einhyrning í þjálfarasamfélaginu og fótboltasamfélaginu. Ég er mjög upptekinn af frammistöðu frekar en úrslitum. Ég rekst ekki brjálæðislega vel í þessum heimi, ég upplifi það."
„Ég ber alveg virðingu fyrir því að úrslitin skipta máli. Maður leiddist inn á þá braut að vera meistaraflokksþjálfari þar sem úrslitin skipta máli. En ég veit ekkert skemmtilegra en að sjá lið þroskast. Hluti af þroskaferlinu er yfirleitt að misstíga sig og stundum hrapalega. Það tekur þann tíma sem það tekur en þegar það tekst, þá er ekkert fallegra en að sjá lið þroskast og svo uppskera með úrslitum. En ég hef alltaf litið á úrslitin sem bónus eftir góða vinnu og frammistöðu," sagði Óskar sem er núna í áhugaverðri vegferð með KR, uppeldisfélagi sínu.
Allt viðtalið má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir