Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   sun 04. júní 2023 11:24
Ívan Guðjón Baldursson
Benzema yfirgefur Real Madrid (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images

Real Madrid er búið að staðfesta að franski sóknarmaðurinn Karim Benzema mun skipta um félag í sumar.


Benzema hefur verið meðal allra bestu leikmanna félagsins undanfarin ár þar sem hann hefur raðað inn mörkunum og verið helsti markaskorari liðsins.

Benzema er 35 ára gamall og mun yfirgefa Real Madrid á frjálsri sölu í sumar. Hann hefur verið sterklega orðaður við félagsskipti til Sádí-Arabíu þar sem honum hefur verið boðinn himinhár launapakki. Það virðist því afar líklegt að Benzema og Lionel Messi munu spila í sömu deild og Cristiano Ronaldo í haust.

Benzema er goðsögn hjá Real Madrid eftir fjórtán ára dvöl hjá félaginu og ógrynni titla. Hann hefur til að mynda unnið spænsku deildina fjórum sinnum með félaginu og Meistaradeild Evrópu fimm sinnum. Hann er titlahæsti leikmaður í sögu Real Madrid með 25 titla í heildina.

Benzema er besti fótboltamaður heims um þessar mundir þar sem hann vann bæði Gullknöttinn og hlaut nafnbótina besti leikmaður ársins hjá UEFA.

Benzema er fimmti leikjahæsti leikmaður í sögu Real Madrid með 647 leiki og næstmarkahæstur með 353 mörk. Auk þess er hann fjórði markahæsti leikmaður í sögu Meistaradeildarinnar og einnig sá fjórði í sögu spænsku deildarinnar.

Það verður haldin kveðjuathöfn í Madríd þriðjudaginn 6. júní. Tugþúsundir stuðningsmanna munu mæta til að kveðja goðsögnina sína.

Benzema er sagður vera á leið til Al-Ittihad. Ronaldo er samningsbundinn Al-Nassr og þá er Lionel Messi orðaður við Al-Hilal.


Athugasemdir
banner
banner
banner