fös 06. janúar 2023 17:13
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Arsenal ákært fyrir hegðunina gegn Newcastle
Mynd: EPA

Enska fótboltasambandið hefur ákært Arsenal fyrir hegðun leikmanna liðsins undir lok leiksins gegn Newcastle á þriðjudag.


Það varð allt vitlaust þegar Arsenal vildi fá vítaspyrnu þegar Jacob Murphy fékk boltann í hendina eftir fyrirgjöf frá Granit Xhaka. VAR skoðaði atvikið og ekkert var dæmt.

Leikmenn Arsenal hópuðust í kringum dómara leiksins og voru allt annað en sáttir með dóminn. Fyrir það fær Arsenal ákæru.

„Arsenal er talið hafa mistekist að hafa stjórn á leikmönnum sínum á 95 mínútu," segir í yfirlýsingu frá sambandinu.

Arsenal hefur til þriðjudagsins 10 janúar til að svara fyrir sig.

Mikel Arteta stjóri liðsins lét einnig öllum illum látum á hliðarlínunni og tjáði sig um tvö atvik í leiknum þar sem honum fannst að liðið ætti að fá víti.

„Það voru tvö víti sem við áttum að fá. Það er svo einfalt. Ég er að tala um það sem ég sá. Þetta voru tvær vítaspyrnur og skandall að við fengum þær ekki, en ég er ótrúlega stoltur af þeirri vinnu sem við lögðum í þetta," sagði Arteta.


Athugasemdir
banner
banner