Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 07. mars 2018 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gattuso: Við erum ekki Brad Pitt
Gattuso er að gera flotta hluti.
Gattuso er að gera flotta hluti.
Mynd: Getty Images
Gennaro Gattuso segir að Arsenal megi búast við „ljótu liði" AC Milan þegar liðin mætast í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á morgun.

Gattuso tók við AC Milan í nóvember síðastliðnum og hefur reist liðið við. Undir hans stjórn hefur Milan ekki tapað í 13 leikjum í röð og farið í gegnum sex leiki í röð án þess að fá á sig mark. Árangurinn hefur verið vonum framar!

Gattuso var mjög harður og baráttuglaður leikmaður. Hann vill að liðið sitt spili þannig.

Hann lét frá sér athyglisverð ummæli fyrir leikinn gegn Arsenal sem er á morgun, Mirror greinir frá.

„Við erum ekki Brad Pitt," sagði Gattuso. „Við verðum að halda áfram að vera eins ljótir og ég og skeggið mitt, með dökka bauga undir augunum okkar."

Gattuso hélt svo áfram og sagðist ekki vera frábær þjálfari.

„Ég vil koma því á hreint, ég er ekki frábær þjálfari. Ég er enn að byrja, ég er enginn sérfræðingur á bekknum og ég hef ekki afrekað neitt ennþá," sagði Gattuso.

„Þú lærir þetta fag ekki með hjálp bóka, þú lærir það með því að takast á við erfiðleika."

Arsenal hefur tapað fjórum leikjum í röð en Gattuso segir að ekkert vanmat sé í gangi hjá sínum mönnum.

„Arsenal er ekki að fara í gegnum jákvæða tíma, en þeir eru með frábæra leikmenn í sínum röðum og hafa skorað 18 mörk í Evrópudeildinni. Við berum mikla virðingu fyrir þeim."

„Ég er bara byrjandi miðað við Arsene Wenger. Við erum að undirbúa okkur fyrir þennan leik eins vel og við getum."

Leikur AC Milan og Arsenal hefst 18:00 á morgun og er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.
Athugasemdir
banner
banner