Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 07. júní 2022 20:45
Ívan Guðjón Baldursson
Þjóðadeildin: Kane bjargaði stigi fyrir England
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Þýskaland og England áttust við í stórleik dagsins í Þjóðadeildinni og var staðan markalaus eftir fjörugan fyrri hálfleik.


Þjóðverjar voru betri í hálfleiknum og komu boltanum í netið en ekki dæmt mark vegna rangstöðu. Englendingar fengu líka sín færi en lentu svo undir í upphafi síðari hálfleiks.

Þjóðverjar héldu boltanum vel fyrstu mínúturnar og skoraði Jonas Hofman eftir frábæra sendingu frá Joshua Kimmich. Hægt að setja stórt spurningarmerki við Jordan Pickford sem átti líklegast að verja þetta skot.

Englendingar skiptu um gír eftir að hafa lent undir og byrjuðu að skapa sér hættuleg færi. Manuel Neuer varði vel frá Harry Kane en Þjóðverjar voru einnig hættulegir og þurfti Pickford að gera vel á hinum endanum.

Englendingar færðu sig nær og nær jöfnunarmarki og fengu vítaspyrnu á lokamínútunum þegar varnarmaður Þjóðverja rann í eigin vítateig og tók Kane niður með sér. Kane, sem virtist rangstæður þegar brotið var á honum, skoraði af miklu öryggi af vítapunktinum. 

Ítalía lagði þá Ungverjaland á heimavelli. Nicoló Barella og Lorenzo Pellegrini skoruðu í fyrri hálfleik, Barella með góðu skoti utan teigs og Pellegrini eftir frábæran undirbúning frá Matteo Politano.

Ungverjar minnkuðu muninn í síðari hálfleik þegar Gianluca Mancini skoraði í eigið net en Ítalir voru óheppnir í leiknum og hefðu getað unnið stærra.

Ungverjar áttu þó góðar rispur og komust nálægt því að jafna leikinn en tókst ekki.

Ítalir eru á toppi riðilsins með fjögur stig. Ungverjar eru með þrjú stig, Þjóðverjar með tvö og Englendingar með eitt.

Þýskaland 1 - 1 England
1-0 Jonas Hofman ('50)
1-1 Harry Kane ('88, víti)

Ítalía 2 - 1 Ungverjaland
1-0 Nicoló Barella ('30)
2-0 Lorenzo Pellegrini ('45)
2-1 Gianluca Mancini ('61, sjálfsmark)


Athugasemdir
banner
banner