Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 07. júní 2023 16:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Lítur betur út en áhorfðist með Sindra - „Ég er í ágætis málum"
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Sindri Björnsson, miðjumaður Leiknis, var borinn af velli rúmum stundarfjórðungi eftir að hafa komið inn á sem varamaður þegar Leiknir tók á móti ÍA í lok síðasta mánaðar.

Eftir leik fór hann á bráðamótttökuna því óttast var að meiðslin væru alvarleg.

Sindri fékk þau svör að hann væri með beinmar. Það getur verið mjög svo mismunandi hversu mikil áhrif slík meiðsli hafa á leikmenn en Sindri segist hafa sloppið vel.

„Þetta lítur ágætlega út, beinmar var niðurstaðan úr myndatökunni. Beinmar getur verið mjög þrálátt og getur tekið upp í hálft ár, en getur líka haft mjög lítil áhrif og hægt að komast út á völl strax," sagði Sindri við Fótbolta.net.

„Það er mismunandi hvernig svona fer í þig og virðist vera að fara ágætlega í mig, ég er í ágætis málum."

„Ég myndi halda að það væri frekar stutt í að ég færi að spila fótbolta aftur. Ég er búinn að láta reyna á þetta og til þessa hefur þetta litið vel út. Það er allavega óhætt að segja að þetta fór allavega betur en áhorfðist í byrjun."

„Á móti kemur er þetta samt ekki 100%, lítur ágætlega út en maður veit aldrei hvernig þetta fer í mann,"
sagði Sindri.

Sindri er 28 ára og er uppalinn í Leikni. Hann hefur einnig leikið með Val, ÍBV og Grindavík á sínum ferli. Hann sneri aftur í uppeldisfélagið fyrir síðasta tímabil eftir tvö tímabil í Grindavík.

Leiknir er í 11. sæti Lengjudeildarinnar eftir fimm umferðir með þrjú stig. Næsti leikur liðsins er gegn Grindavík á laugardaginn.
Athugasemdir
banner