Endurkoma Heimis Guðjónssonar til FH verður formlega opinberuð á morgun. Þessi sigursæli þjálfari er aftur að taka við stjórnartaumunum í Kaplakrika.
„Nýtt og endurbætt þjálfarateymi meistaraflokks karla verður kynnt til sögunnar og gefst stuðningsfólki tækifæri á að heyra frá hópnum og kynnast af eigin raun því hungri sem býr í þeim," segir í auglýsingu fyrir sérstakt stuðningsmannakvöld FH sem haldið verður annað kvöld.
Líklegt er að Sigurvin Ólafsson verði aðstoðarmaður Heimis en Sigurvin var aðstoðarmaður Eiðs Smára Guðjohnsen og stýrði svo FH á lokakafla Bestu deildarinnar í sumar.
Heimir stýrði FH til fimm Íslandsmeistaratitla sem aðalþjálfari, síðast 2016, og eins bikarmeistaratitils. Heimir var látinn fara frá FH haustið 2017.
Síðan þá hefur Heimir stýrt HB til Færeyjameistaratitilsins og bikarmeistaratitilsins og gerði Val að Íslandsmeisturum 2020. Hann var rekinn frá Val í sumar.
Það verður verk að vinna fyrir Heimi og hans menn í Kaplakrikanum en FH var nálægt því að falla í Lengjudeildina í sumar og mikið talað um þörf á endurnýjun á leikmannahópnum.
Í viðtali í byrjun október sagðist Heimir opinn fyrir endurkomu í FH.
„FH gaf mér rosalega mikið. Ég var í 18 ár í FH og félagið gaf mér rosalega mikið. Ég held ég hafi náð að borga það þokkalega til baka," sagði Heimir.
„Þegar þú ert í félagi í 18 ár þá eignast þú fullt af vinum og það er geggjað að vera þarna. Margir af þessum mönnum eru enn góðir vinir mínir í dag. Ég fer oft þarna, dóttir mín er að æfa fótbolta í FH. Ég fer oft að spjalla við Vidda Halldórs og þessa kónga sem eru þarna."
Athugasemdir