Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayerrn
   mán 07. nóvember 2022 21:57
Elvar Geir Magnússon
Heimir kynntur hjá FH á stuðningsmannakvöldi
Heimir snýr heim.
Heimir snýr heim.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Endurkoma Heimis Guðjónssonar til FH verður formlega opinberuð á morgun. Þessi sigursæli þjálfari er aftur að taka við stjórnartaumunum í Kaplakrika.

„Nýtt og endurbætt þjálfarateymi meistaraflokks karla verður kynnt til sögunnar og gefst stuðningsfólki tækifæri á að heyra frá hópnum og kynnast af eigin raun því hungri sem býr í þeim," segir í auglýsingu fyrir sérstakt stuðningsmannakvöld FH sem haldið verður annað kvöld.

Líklegt er að Sigurvin Ólafsson verði aðstoðarmaður Heimis en Sigurvin var aðstoðarmaður Eiðs Smára Guðjohnsen og stýrði svo FH á lokakafla Bestu deildarinnar í sumar.

Heimir stýrði FH til fimm Íslands­meist­ara­titla sem aðalþjálf­ari, síðast 2016, og eins bikar­meist­ara­titils. Heim­ir var lát­inn fara frá FH haustið 2017.

Síðan þá hefur Heimir stýrt HB til Færeyjameistaratitilsins og bikarmeistaratitilsins og gerði Val að Íslandsmeisturum 2020. Hann var rekinn frá Val í sumar.

Það verður verk að vinna fyrir Heimi og hans menn í Kaplakrikanum en FH var nálægt því að falla í Lengjudeildina í sumar og mikið talað um þörf á endurnýjun á leikmannahópnum.

Í viðtali í byrjun október sagðist Heimir opinn fyrir endurkomu í FH.

„FH gaf mér rosalega mikið. Ég var í 18 ár í FH og félagið gaf mér rosalega mikið. Ég held ég hafi náð að borga það þokkalega til baka," sagði Heimir.

„Þegar þú ert í félagi í 18 ár þá eignast þú fullt af vinum og það er geggjað að vera þarna. Margir af þessum mönnum eru enn góðir vinir mínir í dag. Ég fer oft þarna, dóttir mín er að æfa fótbolta í FH. Ég fer oft að spjalla við Vidda Halldórs og þessa kónga sem eru þarna."
Athugasemdir
banner
banner
banner