Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fim 06. október 2022 14:19
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimir lokar ekki dyrunum á FH: Svarið við spurningunni er já
Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Guðjónsson hefur verið orðaður við endurkomu til FH í dag eins og lesa má um hérna.

Fjallað hefur verið um að Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari FH, hafi verið gripinn ölvaður við akstur eftir æfingu hjá liðinu fyrr í þessari viku. Stjórn FH hefur fundað í dag og er búist við því að Eiður Smári verði látinn fara.

Sögur eru í gangi um að Heimir Guðjónsson gæti snúið aftur í Hafnarfjörðinn og tekið við FH. Heimir vann á sínum tíma átta Íslandsmeistaratitila með FH; sem leikmaður, aðstoðarþjálfari og síðan þjálfari.

Hann er án þjálfarastarfs eftir að hafa verið rekinn frá Val í sumar.

Heimir var gestur í hlaðvarpsþættinum Chess After Dark í gær - áður en þessar fréttir komu fram í kastljósið - og var þar spurður hvort það kæmi til greina að stýra FH í Lengjudeildinni á næstu leiktíð - ef liðið endar þar - og tækifærið byðist. FH er núna á fallsvæðinu í Bestu deildinni.

„FH gaf mér rosalega mikið. Ég var í 18 ár í FH og félagið gaf mér rosalega mikið. Ég held ég hafi náð að borga það þokkalega til baka," sagði Heimir.

„Þegar þú ert í félagi í 18 ár þá eignast þú fullt af vinum og það er geggjað að vera þarna. Margir af þessum mönnum eru enn góðir vinir mínir í dag. Ég fer oft þarna, dóttir mín er að æfa fótbolta í FH. Ég fer oft að spjalla við Vidda Halldórs og þessa kónga sem eru þarna."

„Svarið við spurningunni er já," sagði Heimir en hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan.

Fótbolti.net náði ekki í Heimi Guðjónsson þegar reynt var að hringja til hans fyrr í dag.


Athugasemdir
banner
banner
banner