lau 07. desember 2019 16:29
Ívan Guðjón Baldursson
Þýskaland: Toppliðið hafði betur gegn Bayern
Bensebaini fagnar sigurmarkinu gegn Bayern.
Bensebaini fagnar sigurmarkinu gegn Bayern.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Staðan í þýsku toppbaráttunni er afar spennandi um þessar mundir og töpuðu Þýskalandsmeistarar Bayern þriðja leiknum af síðustu fimm í dag.

Gestirnir frá München gjörsamlega stjórnuðu fyrri hálfleiknum en tókst ekki að koma knettinum í netið þrátt fyrir 15 marktilraunir.

Ivan Perisic skoraði í upphafi síðari hálfleiks og jafnaði Ramy Bensebaini metin á 60. mínútu með skalla eftir hornspyrnu.

Kraftur Bæjara úr fyrri hálfleik virtist horfinn og var viðureignin mun jafnari eftir leikhlé. Lokatölurnar réðust þó ekki fyrr en í dramatískum uppbótartíma.

Javi Martinez braut þá af sér með glæfralegri tæklingu innan vítateigs, fékk sitt annað gula spjald og var rekinn af velli. Bensebaini steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Bayern er í fimmta sæti eftir tapið, sjö stigum frá Gladbach.

Borussia M'Gladbach 2 - 1 FC Bayern
0-1 Ivan Perisic ('49)
1-1 Ramy Bensebaini ('60)
2-1 Ramy Bensebaini ('92, víti)
Rautt spjald: Javi Martinez, Bayern ('91)

Timo Werner skoraði tvennu í sigri Leipzig og er hann þar með aðeins einu marki á eftir Robert Lewandowski á lista yfir markahæstu menn tímabilsins.

Leipzig var vaðandi í færum gegn Hoffenheim og hefðu heimamenn hæglega getað unnið stærra þrátt fyrir að vera talsvert minna með boltann.

Werner skoraði fyrstu tvö mörkin, snemma í hvorum hálfleik, áður en Marcel Sabitzer gerði endanlega út um leikinn á 83. mínútu.

Ermin Bicakcic minnkaði muninn fyrir Hoffenheim en það dugði ekki til. Hoffenheim er í áttunda sæti eftir tapið á meðan Leipzig er áfram í öðru sæti, einu stigi eftir Gladbach.

RB Leipzig 3 - 1 Hoffenheim
1-0 Timo Werner ('11)
2-0 Timo Werner ('52, víti)
3-0 Marcel Sabitzer ('83)
3-1 Ermin Bicakcic ('89)

Marco Reus, Jadon Sancho og Thorgan Hazard léku þá á alls oddi er Borussia Dortmund rúllaði yfir Fortuna Düsseldorf.

Reus og Sancho skoruðu báðir tvö og lögðu eitt upp á meðan Hazard skoraði eitt og lagði eitt upp. Dortmund er í þriðja sæti eftir sigurinn, fimm stigum frá toppnum.

Liðsfélagar Alfreðs Finnbogasonar í Augsburg unnu þá mikilvægan sigur á Mainz. Alfreð var ekki með vegna meiðsla.

Augsburg er komið upp í 11. sæti, með 17 stig eftir 14 umferðir.

Dortmund 5 - 0 Dusseldorf
1-0 Marco Reus ('42)
2-0 Thorgan Hazard ('58)
3-0 Jadon Sancho ('63)
4-0 Marco Reus ('69)
5-0 Jadon Sancho ('74)

Augsburg 2 - 1 Mainz
0-1 Levin Oztunali ('15)
1-1 Marco Richter ('41)
2-1 Florian Niederlechner ('65, víti)

Freiburg 1 - 0 Wolfsburg
1-0 Jonathan Schmid ('85)
Athugasemdir
banner
banner