Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   sun 08. desember 2024 23:34
Brynjar Ingi Erluson
Nani leggur skóna á hilluna
Nani er hættur í fótbolta
Nani er hættur í fótbolta
Mynd: Getty Images
Skór portúgalska leikmannsins Nani eru komnir upp í hillu eftir farsælan feril en þetta staðfesti hann í tilkynningu á samfélagsmiðlum í dag.

Nani, sem er 38 ára, hóf ferilinn hjá Sporting Lisbon áður en hann gekk í raðir Manchester United árið 2007.

Vængmaðurinn spilaði með United í átta ár og vann tólf titla — þar á meðal ensku úrvalsdeildina fimm sinnum og Meistaradeild Evrópu einu sinni.

Besta tímabil hans með United var tímabilið 2010-2011 en þá varð hann stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar með nítján stoðsendingar auk þess sem hann var valinn í lið ársins og kosinn besti leikmaður United.

Portúgalinn flakkaði um allan heim eftir dvöl sína hjá United, en hann lék með Fenerbahce, Lazio, Valencia, Orlando City, Venezia, Melbourne Victory, Adana Demirspor og nú síðast Estrala Amadora.

Alls lék hann 616 leiki, skoraði 128 mörk og lagði upp 145 með félagsliðum sínum ásamt því að spila 112 landsleiki og skora 23 mörk.

Hann var í portúgalska landsliðinu sem vann Evrópumótið árið 2016. Á mótinu skoraði hann þrjú mörk, þar á meðal gegn Íslandi í opnunarleiknum og síðan í undanúrslitunum gegn Wales.

„Eins og allir vita þá þá kemur alltaf að endalokum. Ég hef tekið mér tíma til að taka mjög mikilvæga ákvörðun og líklega sú mikilvægasta á ferlinum en það er að hætta í atvinnumennsku. Ég ætla, eins og þeir segja, að leggja skóna á hilluna og tel mig hafa fullnægt skyldu minni. Ég tel mig hafa átt fallegan feril sem var fylltur af afrekum,“ sagði Nani.

Hann hefur þó ekki yfirgefið fótboltann því hann mun halda áfram að halda utan um fótboltakademíuna sem er skírð eftir honum í Fernao Ferro og þá á hann einnig hluta í portúgalska neðri deildarliðinu Sintrense.
Athugasemdir
banner
banner
banner