Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   þri 09. janúar 2024 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hareide: Alltaf bænin áður en ég fer að sofa
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands.
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið fagnar marki.
Íslenska landsliðið fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hareide hefur stýrt Íslandi í átta leikjum.
Hareide hefur stýrt Íslandi í átta leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Íslands og Ísrael árið 2022.
Úr leik Íslands og Ísrael árið 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Fannar Baldursson er á meðal þeirra sem fara með til Bandaríkjanna. Mjög spennandi leikmaður.
Andri Fannar Baldursson er á meðal þeirra sem fara með til Bandaríkjanna. Mjög spennandi leikmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Snorri fer með til Flórída.
Davíð Snorri fer með til Flórída.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Draumurinn er að fara á EM.
Draumurinn er að fara á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég hef tekið því rólega með fjölskyldunni minni. Þetta er alltaf góður tími á árinu finnst mér og ég hef fylgst mikið með fótboltanum. Þegar nýja árið gengur í garð ferðu svo að hugsa um það sem er framundan og þú ferð að undirbúa það sem er að fara að gerast," sagði Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Framundan er stórt ár fyrir íslenska landsliðið, en árið byrjar í Flórída í Bandaríkjunum síðar í þessum mánuði þegar liðið spilar æfingaleiki gegn Hondúras og Gvatemala. Svo er komið að stóru stundinni í mars þegar liðið mætir Ísrael í umspili fyrir EM. Ef liðið vinnur þann leik er það svo úrslitaleikur gegn annað hvort Úkraínu eða Bosníu.

„Ég hef lært að það er mikilvægt að hugsa ekki of langt fram í tímann en marsmánuður verður gríðarlega mikilvægur fyrir íslenskan fótbolta," segir Hareide.

„Vonandi verða allir leikmennirnir klárir svo við getum valið úr þeim öllum. Ég hef verið að tala við nokkra leikmennina um þetta verkefni og ég mun halda áfram að gera það þegar við komum frá Flórída. Ég mun tala við leikmennina sem ég veit að verða í hópnum. Við verðum að undirbúa þá fyrir leikinn, en við verðum að passa það líka að fara ekki fram úr okkur. Flestir leikmennirnir eru að spila með félagsliðum sínum og þeir verða að einbeita sér að því, en við verðum samt smátt saman að gefa þeim upplýsingar um það hvernig við ætlum að spila og hvað við ætlum að gera gegn Ísrael."

Mér finnst við vera á leið í rétta átt
Hareide tók við Íslandi fyrir tæpu ári síðan og hefur verið með liðið í þróun síðan þá. Hann telur að liðið sé á réttri leið þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki verið sérlega góð.

„Ég held að leikmennirnir hafi tekið hugmyndunum frekar fljótt. Ég er ekki ánægður með úrslitin. Ég er ánægðari með frammistöðuna. Í sumum leikjum hefðum við getað gert betur og við hefðum átt að nýta tækifærin betur. Við verðum að taka út mistökin og við verðum að nýta tækifærin betur. Við erum með hugmyndir um það hvernig við ætlum að spila og leikmennirnir verða að reyna að fylgja því sem mest. Varnarleikurinn skiptir miklu máli og við þurfum að vera þéttir saman. Það var markmiðið okkar í Portúgal og mér fannst leikmennirnir gera vel þar. Slóvakíuleikurinn þar á undan var leikur með of mörgum mistökum. Það gengur ekki í landsliðsfótbolta. Þú mátt eiginlega ekki gera nein mistök," segir Hareide.

„Mér finnst við vera á leið í rétta átt. Við erum ekki með eins marga reynda leikmenn og var hér áður fyrr. Við þurfum að finna jafnvægi á milli reyndari leikmanna og þeirra sem efnilegri eru. Við þurfum að treysta á reyndari leikmenn út af þeirra reynslu og þeim sterka haus sem þeir eru með. Við vitum svo að við erum með unga og metnaðarfulla leikmenn sem geta spilað á háu getustigi. Vonandi verða allir klárir fyrir leikina í mars. Það er mikilvægt fyrir okkur því við erum ekki með marga leikmenn með mikla landsliðsreynslu að velja úr."

Ég elska svona leiki
Ísland spilar við Ísrael, eins og áður segir, í undanúrslitunum og er búist við að sá leikur verði á hlutlausum velli út af átökum í landinu. Okkar strákar mæta svo annað hvort Úkraínu eða Bosníu í úrslitaleiknum.

„Ég elska svona leiki. Mér finnst vináttuleikir leiðinlegri. Mér finnst gaman að leikjum sem skipta miklu máli og ég hef farið í marga þannig leiki. Það skiptir miklu máli að undirbúa sig vel og vita allt um andstæðinginn. Þetta snýst um þolinmæði og vera svalur í höfðinu. Við þurfum svona leiki til að geta spilað vel á stóru sviði," segir Hareide.

„Það kom okkur ekki á óvart að fá Ísrael sem andstæðing. Við getum ekki spilað í Ísrael og þurfum að spila á hlutlausum velli. Ég reyni að hugsa ekki um pólitík þegar við erum að tala um fótbolta. Fótbolti er fyrir alla. Ég finn til með fólkinu sem þetta stríð hefur áhrif á. Við getum líka mætt Úkraínu, sem er í stríði núna, og Bosníu, en það er ekki langt síðan þeir voru í stríðsátökum. Það er sorglegt að það er stríð í Evrópu og nálægt þér."

„Við þurfum að einbeita okkur að fyrsta leiknum. Ég verð meira að segja ringlaður ef við förum að hugsa um framhaldið eftir leikinn gegn Ísrael. Við verðum auðvitað með njósnara á leik Úkraínu og Bosníu en við vitum ekki hvernig hann fer. Úkraína er líklegra liðið, það er enginn vafi á því. En fyrst þurfum við að vinna Ísrael og það er möguleiki ef við spilum okkar besta leik."

Hareide er hrifinn af þessu fyrirkomulagi en umspilið tengist Þjóðadeildinni. Hann kveðst elska svona úrslitaleiki.

„Mér finnst þetta mjög gott fyrirkomulag. Það er gott að Þjóðadeildin skipti einhverju máli og gott fyrir okkur að fá annað tækifæri út af úrslitum okkar þar. Ég hef farið í gegnum svona útsláttarkeppni áður og mér finnst það skemmtilegt," segir landsliðsþjálfarinn.

Tækifæri til að skoða fleiri leikmenn
En fyrst, áður en kemur að alvörunni, þá fer landsliðið í æfingaferð til Bandaríkjanna og spilar þar tvo æfingaleiki. Þessir leikir eru ekki á alþjóðlegum leikdögum og eru nánast eingöngu leikmenn sem eru að spila í Skandinavíu í hópnum. Hægt er að sjá hópinn með því að smella hérna.

„Það er hlýrra í Ameríku en í Noregi, sem er gott," segir Hareide léttur.

„Ég hlakka til því þetta er tækifæri til að skoða aðra unga leikmenn og leikmenn sem eru að spila á Íslandi. Ég hef séð þá alla spila en ég hlakka til að sjá þá í þessu umhverfi. Þetta eru mjög áhugaverðir leikmenn. Ég hef talað mikið við Davíð Snorra, þjálfara U21 landsliðsins, og hann kemur með okkur í ferðina. Ég tel það mikilvægt að sameina hans þekkingu um þessa leikmenn og okkar hugmyndafræði um það hvernig við viljum spila."

„Jóhannes Karl, Ég og Davíð munum einnig nýta ferðina til að tala saman um íslenskan fótbolta og hvað sé hægt til að bæta hann. Við erum alltaf að skoða það. Við sáum U19 landsliðið spila á Evrópumótinu í sumar eftir að hafa unnið England. Framtíðin er góð hjá Íslandi og við þurfum bara að vera þolinmóð. Það er mikið bil á milli U21 landsliðsins og A-landsliðins en við þurfum að gefa þessum leikmönnum tækifæri til að sýna sig. Fyrr eða síðar verða þessir leikmenn mjög mikilvægir fyrir Ísland," segir Hareide en hann bætir við að það hafi gengið vel að fá leikmenn í þetta verkefni.

„Öll félögin í Skandinavíu voru mjög hjálpsöm og skildu okkur vel; að við vildum ná góðum hóp saman. Ég verð að þakka þjálfurunum fyrir það. Ég hef talað við suma þeirra og það var bara FC Kaupmannahöfn sem gat ekki sleppt Orra. Það er skiljanlegt þar sem þeir eru að spila í febrúar og eru að fara í æfingaferð. Ég skil þá mjög vel þegar þeir eru að fara í mikilvægan leik í Meistaradeildinni. Öll önnur félög hafa skilið okkur vel."

Meiðsli eru að hrjá leikmenn eins og til að mynda Júlíus Magnússon og Valgeir Lunddal, en Hareide er ánægður með hópinn sem fer til Bandaríkjanna á morgun. „Við fengum til dæmis Sverri Inga með okkur og það er mikilvægt því hann verður að vera hershöfðinginn í vörninni okkar."

Er með góða hugmynd fyrir mars
Hareide hefur stýrt Íslandi í átta leikjum og þeir mikilvægustu til þessa koma í mars. Hann telur sig vera með nokkuð góða mynd af því hvernig liðið verður fyrir þessa gríðarlega mikilvægu leiki.

„Ég er með góða hugmynd um það hvernig við förum inn í mars og ég er með nokkuð skýra mynd á liðinu. Ég hef horft á Ísrael mörgum sinnum nú þegar," segir Hareide.

„Ég veit að það eru nokkrir leikmenn sem munu spila ef þeir eru heilir, sama hvað þeir gera frá þessum tímapunkti og þangað til í mars. Það eru sumir leikmenn sem eru að berjast um stöður en það er gott því leikurinn snýst ekki bara um ellefu leikmenn, heldur mögulega um 16 leikmenn."

„Við þurfum að vera með strategíu fyrir allt sem getur gerst. Vinnan núna og þangað til í mars er áhugaverð. Það gæti verið að ákvörðun frá dómaranum breyti öllu og þú þarft að henda planinu í klósettið. Þannig er fótboltinn."

„Það sem ég bið núna um er að það koma upp engin meiðsli og það er alltaf bænin áður en ég fer að sofa: Ég bið fyrir því að íslensku leikmennirnir meiðist ekki," sagði landsliðsþjálfarinn.

Þetta er fyrsti hluti af viðtali sem var tekið Hareide fyrir verkefnið núna í janúar en fleiri fréttir úr viðtalinu birtast á næstunni.
Athugasemdir
banner