Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   mið 09. október 2024 17:16
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mæta besta liði heims tvisvar - „Miklar breytingar eftir að hún tók við"
Icelandair
Stelpurnar mæta í Bandaríkjunum í tveimur vináttulandsleikjum í október.
Stelpurnar mæta í Bandaríkjunum í tveimur vináttulandsleikjum í október.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Bandaríkin eru ríkjandi Ólympíumeistarar.
Bandaríkin eru ríkjandi Ólympíumeistarar.
Mynd: Getty Images
Emma Hayes er afar fær þjálfari.
Emma Hayes er afar fær þjálfari.
Mynd: EPA
Donald Trump er að reyna að verða forseti aftur.
Donald Trump er að reyna að verða forseti aftur.
Mynd: Getty Images
Tveir hörkuleikir framundan.
Tveir hörkuleikir framundan.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Íslenska kvennalandsliðið er á leið í mjög áhugaverða æfingaferð til Bandaríkjanna þar sem liðið mun mæta Ólympíumeisturunum í tvígang. Ísland hefur aldrei verið ofar á heimslistanum - er í 13. sæti - og fær núna tækifæri til að mæta besta landsliði heims til að þróa sig enn frekar áfram.

„Ég vil bara fá áframhald á frammistöðu sem við höfum sýnt undanfarið, áframhald á sterkum varnarleik og þróun í því að halda í boltann og að finna leiðir í gegnum varnir andstæðinga. Bandaríkin eru gríðarlega sterkt lið sem hefur verið að stíga upp aftur eftir smá erfðleika í kringum HM. Þær eru með frábæra leikmenn og gott lið," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi í dag þegar hann ræddi um leikina.

„Þetta gefur okkur tækifæri til að halda áfram að þróast og þroskast. Ég sagði það í byrjun síðasta árs að við þyrftum að spila fleiri erfiða leiki til að verða betri og þetta er bara einn parturinn af því."

Bandríkin urðu Ólympíumeistarar í sumar og eru á góðum stað eftir að Emma Hayes tók við liðinu. Hayes er gríðarlega fær þjálfari og eitt stærsta nafnið í kvennaboltanum en hún skrifaði undir stóran samning við bandaríska knattspyrnusambandið undir lok síðasta árs.

„Mér líst vel á það," sagði Þorsteinn spurður að því hvernig væri að mæta henni. „Maður hefur séð miklar breytingar á spilamennsku liðsins eftir að hún tók við. Það tók hana smá tíma að ná sínu í gegn, sem er eðlilegt. Maður sá þróunina á liðinu á Ólympíuleikunum. Hún er gríðarlega fær þjálfari og það verður verðugt verkefni að spila gegn Bandaríkjunum. Þetta verða erfiðir leikir en við trúum á okkur sem lið. Við munum halda áfram að vinna í því og þróast í þá átt að við verðum hundleiðinlegt lið að spila á móti."

Hvernig fengum við þessa leiki?
En hvernig kom það til að Ísland er að spila gegn besta landsliði í heimi í tveimur æfingaleikjum?

„Þetta eru samtöl sem eiga sér stað. Þetta var þannig að það voru ekkert margar þjóðir lausar í Evrópu að spila. Þegar við vorum að leita okkur að leik, þá voru bara níu þjóðir lausar og ekkert mikið um að velja. Það kom eitthvað samtal upp og þetta var niðurstaðan," sagði Þorsteinn.

„Við erum að leita okkur að leikjum í nóvember og desember, en það hefur verið tómt basl. Við vitum ekkert hverjar detta út í umspilinu. Það er ekkert mikið um að velja og ekki margir möguleikar. Bandaríkin höfðu heldur ekki marga möguleika í Evrópu. Við höfðum engan annan leik og ákváðum að stökkva á þetta þegar þau ræddu við okkur. Ég tel það gott fyrir okkur að spila á móti svona sterkum andstæðingi."

Íslenska landsliðið er komið á EM og þarf ekki að fara í umspil. Það er ekki enn búið að draga á EM og ekki að horfa í andstæðinga þar strax.

„Þetta fyrirkomulag er frekar skrítið. Við spilum æfingaleiki núna og aftur í nóvember/desember. Síðan byrjar Þjóðadeildin í febrúar og við þurfum að standa okkur þar til að vera sem hæst skrifuð fyrir dráttinn fyrir undankeppni HM. Í sjálfu sér er maður ekki endilega að horfa í EM núna. Maður er að horfa í þróunina á liðinu. Í Þjóðadeildinni þurfum við að ná í góð úrslit til að koma með jákvæðum hætti inn í EM. Í dag erum við að undirbúa liðið fyrir framhaldið sem er fyrst Þjóðadeildin og svo kemur EM. Í sjálfu sér er maður að taka hvern glugga fyrir sig."

„Mér finnst frábært að vera í æfingaleikjum núna og vera ekki í umspili, mér finnst það æðislegt. Þú ert ekki endilega að spá í andstæðingum átta mánuðum fyrir mót. Þú ert bara að hugsa um hvernig þú ætlar að þróa liðið áfram. Þegar nær dregur ertu að fara að hugsa um áhersluatriðin á mótinu sjálfu. Það er erfiðara að gera svoleiðis þegar þú veist ekki á móti hverjum þú ert að fara að spila. Þetta snýst meira um það núna að gera liðið betra í öllum þáttum leiksins. Ef við gerum það, þá eykur það líkurnar á því að við getum tekist á við hvað sem er inn á EM," sagði Þorsteinn á fundinum.

Trump eða Harris?
Leikirnir fara fram í Bandaríkjunum á áhugaverðum tíma þar í landi. Það eru spennandi forsetakosningar á næsta leyti þar sem þjóðin mun velja á milli Donald Trump og Kamölu Harris.

Þorsteinn fékk skemmtilega lokaspurningu á fundinum. Hvoru megin stendur þú í baráttunni?

„Mér finnst gaman að Trump, hann er svona skemmtiefni. Ég held að ég sé frekar Harris megin en ég er ekki það mikið inn í pólitík í Bandaríkjunum. Mér finnst Trump ákveðið skemmtiefni en forseti Bandaríkjanna á kannski ekki að vera það," sagði Þorsteinn léttur.
Athugasemdir
banner
banner