fim 10. júní 2021 13:20
Ívan Guðjón Baldursson
Hægt að kaupa Kingsley Coman í sumar
Mynd: Getty Images
Franski kantmaðurinn Kingsley Coman er falur í sumar samkvæmt frétt frá Bild.

Hinn 24 ára gamli Coman er samningsbundinn FC Bayern München næstu tvö árin en vill fá næstum tvöfalt hærri laun til að vera áfram í herbúðum Þýskalandsmeistaranna margföldu.

Bayern neitar að gefa honum svo mikla launahækkun og greinir Bild frá því að Coman sé því fáanlegur í sumar - fyrir rétt verð.

Coman verður 25 ára um helgina og á ótrúlegan feril að baki, þar sem hann hefur alltaf unnið deildina á hverju einasta tímabili. Fyrstu tvö árin vann hann frönsku deildina með PSG, svo vann hann ítölsku deildina tvisvar með Juventus og nú hefur hann unnið þýsku deildina sex sinnum með Bayern.

Coman, sem fer með franska landsliðinu á EM í sumar, er þó ekki talinn falur fyrir minna en 60 milljónir evra.

Coman var í landsliðshópi Frakka sem tapaði úrslitaleiknum á síðasta Evrópumóti. Hann var þó ekki með er Frakkland vann HM í Rússlandi 2018.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner