Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   mán 10. júlí 2023 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Ef þú ætlar að falla á eitthvað sverð þá er eins gott að það sé þitt eigið"
Það er tilgangslaust að liggja til baka og reyna verja eitthvað þegar það er ekki það sem þú gerir dagsdaglega.
Það er tilgangslaust að liggja til baka og reyna verja eitthvað þegar það er ekki það sem þú gerir dagsdaglega.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við þurfum að sýna að það skipti ekki máli hversu stórt sviðið er. Við þurfum að vera við sjálfir; það er gríðarlega mikilvægt
Við þurfum að sýna að það skipti ekki máli hversu stórt sviðið er. Við þurfum að vera við sjálfir; það er gríðarlega mikilvægt
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Breiðablik vann sannfærandi 5-0 sigur á Buducnost á leið sinni í leikinn á morgun.
Breiðablik vann sannfærandi 5-0 sigur á Buducnost á leið sinni í leikinn á morgun.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Við þurfum að halda fast í sjálfsmyndina okkar. Þetta snýst að langstærstum hluta um okkur, miklu frekar en andstæðinginn, þó að við auðvitað undirbúum okkur fyrir hann.
Við þurfum að halda fast í sjálfsmyndina okkar. Þetta snýst að langstærstum hluta um okkur, miklu frekar en andstæðinginn, þó að við auðvitað undirbúum okkur fyrir hann.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Kvennalandsliðið lék á Tallaght leikvanginum 2017.
Kvennalandsliðið lék á Tallaght leikvanginum 2017.
Mynd: Getty Images
Shamrock mætti Stjörnunni í forkeppni Evrópudeildarinnar 2017.
Shamrock mætti Stjörnunni í forkeppni Evrópudeildarinnar 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Leikkerfið skiptir ekki máli, þetta snýst um að hugmyndafræðin nái að skína í gegn, sjálfsmyndin sé sterk og að menn geti brugðist við því sem er hent á þá á þann hátt sem þeir hafa lært.
Leikkerfið skiptir ekki máli, þetta snýst um að hugmyndafræðin nái að skína í gegn, sjálfsmyndin sé sterk og að menn geti brugðist við því sem er hent á þá á þann hátt sem þeir hafa lært.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þú ert að fara reyna þig við það óþekkta, tilhlökkunin við að reyna sig gegn andstæðingi sem þú hefur ekki mátað þig við áður, það er stærsti munurinn
Þú ert að fara reyna þig við það óþekkta, tilhlökkunin við að reyna sig gegn andstæðingi sem þú hefur ekki mátað þig við áður, það er stærsti munurinn
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Á morgun fer fram fyrri leikur Breiðabliks og Shamrock Rovers í 1. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar. Seinni leikurinn fer svo fram á Kópavogsvelli viku síðar.

Leikurinn á morgun fer fram á Tallaght Stadium í Dublin og var sett áhorfendamet þar þegar Real Madrid kom í heimsókn sumarið 2009. Þá voru tæplega 11 þúsund manns á vellinum sm tekur 8000 manns í sæti. Shamrock er írskur meistari, liðið komst í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra og er sem stendur í toppsæti deildarinnar þegar rúmur fjórðungur er eftir.

Fótbolti.net ræddi við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara Breiðabliks, þegar stutt var í æfingu dagsins hjá Blikum.

„Mér líst feikilega vel á þennan leik. Já, ég hugsa að það sé hægt að segja það, en er það ekki dálítið þannig að næsti leikur er alltaf stærsti leikurinn? En auðvitað er þetta mjög stór leikur og mikið undir, að því leytinu til er þetta stærsti leikurinn til þessa á tímabilinu. Markmiðið er að spila vel og að sýna að við séum að taka framförum á Evrópusviðinu," sagði Óskar.

Gríðarlega mikilvægt að vera þeir sjálfir
Er hugmyndafræðin öðruvísi í Evrópuleikjum eða er þetta framhald af leikjum í íslensku deildinni?

„Þetta er kannski ekkert framhald af leikjum í deildinni nema að við þurfum að halda fast í það hefur komið okkur á þennan stað. Við erum búnir að læra af þessum leikjum; fórum til Portúgals í vetur og spiluðum þar mjög góða leiki við Brentford B og Elfsborg. Brentford B spilar að mörgu leyti ekkert ósvipað kerfi og með svipaðar áherslur og Shamrock."

„Þar (í vetur) þorðum við að halda og spila boltanum, þorðum við að fara í gegnum þá (Brentford B), þorðum að stíga hátt upp á þá. Við þurfum að sýna að það skipti ekki máli hversu stórt sviðið er. Við þurfum að vera við sjálfir; það er gríðarlega mikilvægt."


Eins ólíkt hefðbundnu írsku liði og hægt er
Er leikstíll Shamrock líkari leikstíl Breiðabliks heldur en annarra íslenskra liða?

„Þetta er örugglega nær okkar leikstíl heldur en mörg önnur lið. Ef þú værir með fyrirframgefna skoðun um klassískt írskt lið þá er þetta ekki þannig. Maður myndi halda að það væru risastórir hafsentar og stór framherji þar sem boltanum er hamrað upp og seinni boltinn unninn - kannski eins og Aberdeen (frá Skotlandi) spilaði. Þetta er eins ólíkt því og það verður. Þetta er lið sem er miklu meira með boltann en andstæðingarnir og vilja spila helst úr öllu. Á móti eru þeir lélegastir í írsku deildinni í skallaeinvígum."

Mega ekki verða hræddir þó að sviðið sé stórt
Eru lagðar áherslur á aðra hluti en í hefðbundnum deildarleik? Óskar hefur fyrir leiki talað um að vinna fleiri návígi en andstæðingurinn og vera með yfirhöndina í leikjum.

„Þetta snýst um það sama, auðvitað eru samt alltaf einhverjar misjafnar áherslur eftir því við hverja þú ert að spila. Sterkustu leikmenn liðanna geta verið í mismunandi stöðum og leiðir liðanna geta verið ólíkar hvað varðar sóknar- og varnarleikinn. Í grunninn þurfum við að sjá til þess að okkar hlutir séu í lagi, að varnarleikurinn ofarlega á vellinum sé góður og að við séum kröftugir og orkumiklir."

„Við þurfum að þora að spila og þora að fara í svæðin sem eru opin. Við megum ekki verða hræddir þó að sviðið sé stórt. Við þurfum að halda fast í sjálfsmyndina okkar. Þetta snýst að langstærstum hluta um okkur, miklu frekar en andstæðinginn, þó að við auðvitað undirbúum okkur fyrir hann. Það skiptir engu máli hvort að það sé Evrópuleikur við Shamrock eða deildarleikur við Fylki eða Víking."


Hefur virkað ágætlega að fara út tveimur dögum fyrr
20 leikmenn Breiðabliks og eru þeir allir (fyrir æfinguna allavega) heilir heilsu.

Breiðablik ferðaðist út í gær. „Flugið var klukkan sex í gærmorgun. Það eyðileggur á einhvern hátt eina nótt og það væri skárra að gera það tveimur dögum fyrir leik. Við höfum yfirleitt farið tveimur dögum fyrr og það hefur virkað ágætlega. Við spiluðum á föstudaginn, æfðum á laugardaginn og dagurinn í gær hefði að öllu jafna verið hvíldardagur. Við notuðum hann í ferðalagið, til að hvílast, halda fund og borða vel. Í dag er svo fundur og æfing. Á morgun er svo fundur og leikur."

„Þessar Evrópuferðir eru feikilega góðar til að hrista saman hópinn og þétta hann. Þær hafa reynst okkur mjög dýrmætar í því."


Máta sig við það óþekkta
Er öðruvísi stemning í aðdraganda Evrópuleikja miðað við leiki á Íslandsmótinu?

„Það er kannski eðlilega meiri stemning, meiri tilhlökkun sem maður finnur. Það eru mikil forréttindi að fá að taka þátt í þessu og ég upplifi tilhlökkun og eftirvæntingu; það eru sterkustu tilfinningarnar sem ég finn öðruvísi en fyrir aðra leiki."

„Þú ert að fara reyna þig við það óþekkta, tilhlökkunin við að reyna sig gegn andstæðingi sem þú hefur ekki mátað þig við áður, það er stærsti munurinn. Við vitum í raun ekki fyrr en leikurinn byrjar hvar við stöndum gagnvart Shamrock."

„Við teljum okkur eiga fína möguleika, vitum að við erum með mjög gott lið, vitum að þeir náði árangri í Evrópu í fyrra og eru efstir í deildinni. Þeir eru öflugt og rútínerað lið. Eina sem dugir okkur er að spila okkar allra besta leik. Eina leiðin sem dugir okkur er að þora að vera við sjálfir eins og ég sagði áðan. Við megum ekki láta þá anda."


Þá er eins gott að það sé þitt eigið sverð
Miðað við þín orð þá værir þú ekki sáttur ef liðið þitt myndi liggja til baka gegn Shamrock, eða hvað?

„Það er tilgangslaust að liggja til baka og reyna verja eitthvað þegar það er ekki það sem þú gerir dagsdaglega. Ef þú ætlar að falla á eitthvað sverð þá er eins gott að það sé þitt eigið, en ekki sverð sem einhver annar er búinn að stilla upp og segir að best sé að falla á það. Það liggur í hlutarins eðli og okkar styrkleiki liggur ekki í því að liggja til baka og verjast lágt."

„Auðvitað vitum við að á móti góðum liðum, hvort sem þau eru íslensk eða erlend, þá er okkur alltaf ýtt niður á einhverjum tímapunkti, en við viljum helst ekki fara sjálfviljugir niður. Við þurfum að passa okkur á því að halda í það."

„Við erum búnir að spila 15 Evrópuleiki og sex æfingaleiki við erlend lið á síðustu 3-4 árum. Við erum búnir að halda sömu hugmyndafræði á lofti í öllum þessum leikjum og það væri til lítils að kasta því fyrir bý til þess að reyna freista þess að ná í ein úrslit."

„Við erum búnir að læra af þessum leikjum að við þurfum að vera laserfókuseraðir, þurfum að verjast inni í okkar teig og við þurfum að vera virkilega skarpir og einbeittir þegar við fáum færi. Við erum yfirleitt fínir á milli teiganna en við getum bætt hitt; inn í okkar eigin og vítateig andstæðingsins."

„Það er liðsins að sýna það á morgun að við séum búnir að taka skref fram á við. Tilgangurinn í þessu er að verða betri í því sem þú ert að gera og þú gerir það ekki ef þú ætlar í sífellu að vera breyta þér og aðlaga þig að öðrum."


Snýst um að menn geti brugðist við því sem hent sé á þá
Miðverðirnir Damir Muminovic, Oliver Stefánsson og Viktor Örn Margeirsson voru allir í liðinu gegn Fylki á föstudag. Hann vildi þó ekki meina að Breiðablik hefði verið í þriggja miðvarða kerfi í leiknum þegar fréttaritari ýjaði að því.

„Alls ekki þriggja miðvarða kerfi, Oliver var bara vinstri bakvörður. Það eru engar líkur á því að við spilum þriggja manna vörn á morgun, höfum ekki gert það síðan snemma sumars 2021. En hvað er þriggja manna vörn og hvað er fjögurra manna vörn? Þetta verður allt einhvern veginn, það er hægt að sjá ýmislegt út úr hlutunum þegar leikurinn er í gangi. Fyrir okkur var Oliver ekki vinstri hafsent en einhverjir gætu hafa séð það þannig."

„Leikkerfið skiptir ekki máli, þetta snýst um að hugmyndafræðin nái að skína í gegn, sjálfsmyndin sé sterk og að menn geti brugðist við því sem er hent á þá á þann hátt sem þeir hafa lært. Það skiptir í raun engu máli hvernig þú stillir upp í byrjun leiks. Við munum ekki byrja leikinn í þriggja manna vörn,"
sagði Óskar að lokum.

Leikurinn á morgun hefst klukkan 18:45 á íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu á Fótbolta.net
Athugasemdir
banner
banner
banner