Alonso, Neto, Eze, Greenwood, Ramaj, Alli, Son og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 12. febrúar 2024 16:00
Elvar Geir Magnússon
Vidal kallar eftir að öryggismál verði hert eftir að hætta þurfti leik í Síle
Leiknum um Ofurbikar Síle var hætt vegna ófriðs meðal áhorfenda.
Leiknum um Ofurbikar Síle var hætt vegna ófriðs meðal áhorfenda.
Mynd: EPA
Arturo Vidal.
Arturo Vidal.
Mynd: EPA
Ofurbikarleikurinn í Síle, meistarar meistaranna, var stöðvaður í gær vegna óláta áhorfenda og leik var hætt þegar um fimmtán mínútur voru eftir. Colo Colo var 2-0 yfir gegn Huachipato þegar lætin í stúkunni náðu suðumarki og dómarinn ákvað að láta gott heita.

Harðkjarna stuðningsmannahópur Colo Colo hafði skapað vesen fyrir leikinn en lætin náðu hápunkti þegar stuðningsmennirnir reyndu að komast inn á völlinn í seinni hálfleik.

Lögreglan barðist við að halda stuðningsmönnum frá vellinum. Táragas var notað, blysum kastað, flugeldum skotið upp og eldur kom upp í stúkunni.

Arturo Vidal, fyrrverandi leikmaður Barcelona, gekk nýlega í raðir Colo Colo og skoraði seinna markið. Hann sagði nauðsynlegt að öryggisráðstafanir í kringum fótboltaleiki í landinu yrðu hertar og farið vandlega yfir hvað gerðist enda eru boltabullulæti algeng í landinu.

Þetta var fyrsti leikur Vidal með Colo Colo síðan hann gekk á ný í raðir félagsins í janúarmánuði en hann er feikilega vinsæll í landinu.

Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis, var meðal vallargesta og skrifaði um reynslu sína í grein sem birtist í morgun.

„Ég ætla ekki að láta eins og ég hafi óttast um líf mitt eða neitt slíkt. Aldrei á meðan leik stóð var ég virkilega smeykur. Öðru máli gilti um krakkana mína. Ég hafði smá áhyggjur af þeim ef aðstæður yrðu slíkar að ég réði ekki við þær," skrifaði Kolbeinn Tumi meðal annars.


Athugasemdir
banner
banner
banner