Bayern og Real vilja Dalot - Liverpool að vinna í Kerkez - Newcastle ætlar að reyna við Delap
   mið 12. mars 2025 22:49
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Meistaradeildin: Svakaleg dramatík er Real Madrid vann í vítaspyrnukeppni
Real Madrid fagna eftir að Rudiger tryggði liðinu sigurinn
Real Madrid fagna eftir að Rudiger tryggði liðinu sigurinn
Mynd: EPA
Mark Gallagher eftir hálfa mínútu var ekki nóg
Mark Gallagher eftir hálfa mínútu var ekki nóg
Mynd: EPA
Atletico Madrid 1 - 0 Real Madrid (2-4 í vítakeppni)
1-0 Conor Gallagher ('1 )

Real Madrid er komið áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir ótrúlega vítaspyrnukeppni.

Atletico Madrid var 2-1 undir eftir fyrri leikinn en liðið var ekki lengi að jafna metin í einvíginu. Conor Gallagher kom boltanum í netið eftir tæpar þrjátíu sekúndur þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Rodrigo de Paul.

Vinicius Junior vildi fá vítaspyrnu eftir tuttugu mínútna leik þegar hann vippaði boltanum í hendina á Giuliano Simeone en ekkert dæmt.

Real Madrid var mun meira með boltann í fyrri hálfleiknum en tækifærin voru hjá Atletico. Fyrsta skot Real á rammann kom eftir hálftíma leik þegar Rodrygo átti skot sem Jan Oblak átti ekki í miklum vandræðum með.

Real Madrid fékk vítaspyrnu þegar Clement Lenglet braut á Kylian Mbappe inn í teignum. Vinicius steig á punktinn en skaut hátt yfir markið.

Angel Correa hefði getað tryggt Atletico sigurinn undir lokin en skaut yfir úr erfiðri stöðu í stað þess að gefa boltann.

Framlengja þurfti leikinn en hvorugu liðinu tókst að skapa sér almennilegt færi og grípa þurfti því til vítaspyrnukeppni.

Mbappe og Alexander Sörloth skoruðu úr fyrstu spyrnum liðanna. Bellingham kom Real yfir en Julian Alvarez varð fyrir því óláni að renna og snerta boltann með báðum fótum áður en hann skoraði og markið var því dæmt ógilt.

Atletico fékk hins vegar tækifæri að komast aftur inn í þetta þegar Jan Oblak varði frá Vazquez en Marcos Llorente skaut í slá. Það var síðan Antonio Rudiger sem tryggði Real Madrid áfram en Oblak var hársbreidd frá því að verja frá honum.

Real Madrid mætir Arsenal í átta liða úrslitum.
Athugasemdir
banner
banner
banner