Í dag var tilkynnt að Helgi Sigurðsson myndi hætta sem þjálfari ÍBV eftir tímabilið en hann bað sjálfur um að losna. Fjölskylduaðstæður eru sagðar ástæðan í tilkynningu frá ÍBV.
Helgi stýrði Eyjamönnum upp í efstu deild en mun ekki fylgja liðinu þangað. Mjög spennandi verður að sjá hver verður í þjálfarastólnum í Vestmannaeyjum á næsta ári.
Daníel Geir Moritz mun að öllum líkindum hringja fyrst í Heimi Hallgrímsson. 433.is segir útilokað að Heimir taki við liðinu en Eyjamenn munu reyna. Veltur mögulega á því hvort Heimir fái spennandi tilboð á borðið erlendis frá. Ástsælasti þjálfari þjóðarinnar er ekki líklegur... en við útilokum ekkert! Hjarta hans slær með ÍBV.
Hermann Hreiðarsson er orðaður við starfið. Hemmi er Eyjamaður og er orðinn miklu reyndari og færari en hann var þegar hann hélt síðast um stjórnartaumana í Vestmannaeyjum. Náði frábærum árangri með Þrótt Vogum á liðnu tímabili og stýrði liðinu upp í Lengjudeildina.
Sigurvin Ólafsson er að öllum líkindum á blaði. Annar Eyjamaður. Er aðstoðarþjálfari KR og aðalþjálfari KV sem er nálægt því að tryggja sér sæti í Lengjudeildinni. Það fara góðar sögur af þjálfarahæfileikum Sigurvins.
Jón Þór Hauksson mun væntanlega fá nokkur tilboðin eftir tímabilið. Þessi fyrrum þjálfari kvennalandsliðsins er nú þjálfari Vestra á Ísafirði þar sem hann skrifaði undir samning út tímabilið. Hefur verið orðaður við ÍBV og fleiri lið.
Ágúst Gylfason hættir með Gróttu eftir tímabilið. Hann hefur verið orðaður við Fjölni en getur hann sagt nei ef símtalið frá Vestmannaeyjum berst?
Ian Jeffs hefur horft löngunaraugum til aðalþjálfarastarfs ÍBV. Þekkir félagið út og inn og er aðstoðarmaður Helga Sigurðssonar.
Rúnar Páll Sigmundsson myndi væntanlega henta ÍBV afskaplega vel. Hann var ráðinn þjálfari Fylkis út tímabilið en óvíst er hvað hann mun gera á því næsta. Margir telja að Rúnar og ÍBV gætu smollið mjög vel saman.
Er ÍBV að fara að horfa innan Vestmannaeyja? Gunnar Heiðar Þorvaldsson er gríðarlega vinsæll í samfélaginu og hefur gert mjög áhugaverða hluti með KFS. Er hans tími kominn strax?
Arnar Hallsson, þjálfari ÍR og þjálfari Aftureldingar, er gríðarlega metnaðarfullur þjálfari sem leggur sig allan í verkefnið. Breiðhyltingar hafa ekki verið að gera merkilega hluti í 2. deildinni en í bikarnum hefur liðið vakið mikla athygli.
Athugasemdir