Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 15. nóvember 2013 08:30
Magnús Már Einarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Njótum hverrar sekúndu sem býðst
Magnús Már Einarsson
Magnús Már Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Árni Torfason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í kvöld klukkan 19:00 fer fram stærsti leikur í knattspyrnusögu Íslands þegar Króatar koma í heimsókn á Laugardalsvöll. Eftir seinni leik þessara þjóða næsta þriðjudag liggur ljóst fyrir hvort þeirra fer á HM í Brasilíu næsta sumar.

Að sjálfsögðu seldist strax upp á leikinn á Laugardalsvelli í kvöld og því miður komast miklu færri að en vildu. Það mál verður þó ekki leyst í þessum pistli en vonandi er að þjóðarleikvangur okkar verði stærri og betri í framtíðinni.

Þrátt fyrir að hundleiðinleg hlaupabraut sé staðsett á þjóðarleikvangi Íslands í knattspyrnu þá er hægt að búa til stemningu á leikjum á Laugardalsvelli og það hefur sýnt sig í síðustu tveimur heimaleikjum gegn Kýpur og Albaníu.

Íslendingar eru þó duglegri en flestar aðrar þjóðir við að mæta of seint eða á síðustu stundu á knattspyrnuleiki og eiga þar örugglega heimsmet ef miðað er við höfðatöluna frægu. Oftar en ekki eru stúkurnar á Laugardalsvelli hálftómar þegar þjóðsöngvarnir eru leiknir fyrir leik og það er eitthvað sem stuðningsmenn mega taka til sín.

Mikil umferð er í kringum leikvanginn fyrir leik og ef menn hafa tök á er um að gera að mæta snemma Laugardalinn og taka þátt í skemmtilegum upphitunum sem verða í gangi á Ölver og í Laugardalshöll. Þaðan er hægt að labba stuttan spöl á völlinn og mæta tímanlega í stúkuna.

Leikmenn íslenska landsliðsins eiga það skilið að í kvöld verði áhorfendur mættir í hvert einasta sæti að minnsta kosti tíu mínútum fyrir leik.....þó að það verði kalt úti!

Í síðasta leik var gerð tilraun með mósaík mynd í annarri stúkunni en hún mistókst því að áhorfendur voru ekki mættir í tæka tíð. Eitthvað sem myndi seint gerast erlendis.

Þrátt fyrir að allir áhorfendur hafi ekki verið mættir í síðustu landsleikjum þá hefur stemningin verið rafmögnuð þegar þjóðsöngur Íslands er sunginn og það er hægt að toppa þá stemningu í kvöld og gefa Króötum um leið tóninn fyrir leikinn sjálfan.

Um 700 Króatar mæta á leikinn í kvöld og það væri skammarlegt ef þeir ná að yfirgnæfa 9000 Íslendinga.

Ef þú mætir á Laugardalsvöll í kvöld, taktu þátt með því að styðja liðið. Íslenska landsliðið er einu skrefi frá HM og að komast þangað yrði að mínu mati stærsta afrekið í íslenskri íþróttasögu. Það yrði einsdæmi að svo fámenn þjóð komist í lokakeppni HM í vinsælustu íþrótt heims. Láttu ekki þitt eftir liggja. Áfram Ísland!
Athugasemdir
banner
banner