Rashford gerir allt til að komast til Barcelona - Lecce hafnar tilboði Man Utd - Duran til Real Madrid?
   mið 17. október 2018 12:28
Þórður Már Sigfússon
Laugardalsvöllur uppfyllir ekki kröfur UEFA/FIFA
Ísland gæti lent í vandræðum með leikstað í mars 2020
Laugardalsvöllur verður ekki keppnishæfur í mars 2020 miðað við núverandi aðstæður.
Laugardalsvöllur verður ekki keppnishæfur í mars 2020 miðað við núverandi aðstæður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gangi áætlanir eftir munu framkvæmdir við stækkun Laugardalsvallar hefjast á næsta ári en niðurstöður starfshóps ríkis og borgar gera ráð fyrir að endanleg ákvörðun þess efnis liggi fyrir í lok þess árs

Í minnisblaði frá KSÍ um kröfur UEFA/FIFA til Laugardalsvallar kemur fram að leikvangurinn er í 3. flokki af fjórum mögulegum en æskilegast er að skilgreindir þjóðarleikvangar í knattspyrnu séu í fjórða og efsta gæðaflokki.

Auk þess kemur fram í minnisblaðinu að þrátt fyrir að vera í þriðja og næstefsta gæðaflokki stenst Laugardalsvöllur ekki allar þær kröfur sem gerðar eru til leikvanga í þeim flokki.

Þær kröfur sem gerðar eru til þriðja flokks leikvanga og Laugardalsvöllur uppfyllir ekki eru:

- Leikflötin og undirlagið er ekki slétt og undir völlinn vantar hitalagnir.

- Salerni eru of fá í búningsklefum keppnisliða auk þess sem þeir eru of litlir en ekki er rými þar fyrir 25 einstaklinga eins og kröfur gera ráð fyrir.

- Búningsklefi dómara er of lítill og þar vantar aðra sturtu.

- Lyfjaeftirlitsherbergi er of lítið.

- Mörk milli stuðningsmanna aðkomuliðs og heimaliðs eru ekki nógu skýr. Aðskilnaðurinn er ekki varanlegur og er ófullnægjandi og ekki alltaf öruggur. Þá er ekki til staðar salernisaðstaða né veitingasala fyrir stuðningsmenn aðkomuliðs sem stenst reglur UEFA eða FIFA.

- Lýsing við innkomu á völlinn (utan girðingar) og nánasta umhverfi er ófullnægjandi.

- Aðstaða fyrir sjónvarpsfólk er ófullnægjandi og eru sjónvarpsstúdíó of lítil.

- Aðstöðurými fyrir sjónvarps- og útvarpslýsendur eru fjögur en samkvæmt kröfum þurfa þau að vera fimm.

- Aðgangshlið (turnstiles) eru ekki til staðar.

Að lokinni undankeppni EM 2020 í nóvember á næsta ári mun umspil fjögurra landsliða fara fram í mars 2020, þar sem niðurröðun eftir árangur í Þjóðadeildinni verður m.a. tekin með í reikninginn.

Ljóst er að ekki verður hægt að spila á Laugardalsvellinum á þeim árstíma miðað við núverandi aðstæður.

Athugasemdir
banner
banner