Dortmund með risaverðmiða á Gittens - Greenwood til PSG - Bayern hætt við að fá Tah - Launakröfur Osimhen trufla
banner
   þri 18. febrúar 2025 11:43
Elvar Geir Magnússon
Sakar Gylfa um mikla vanvirðingu gagnvart liðsfélögum og Val
Gylfi Þór Sigurðsson er á leið frá Val.
Gylfi Þór Sigurðsson er á leið frá Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, ritar pistil til stuðningsmanna Vals á hóp á Facebook sem kallast 'Fjósið'. Þar staðfestir hann að Gylfi hafi verið seldur til Víkings og sakar leikmanninn um að hafa sýnt liðinu og félaginu vanvirðingu í aðdragandanum.

Björn segir ljóst að eftir að hafa rætt við leikmenn Vals og þá sem koma að liðinu að ákveðinn trúnaðarbrestur hafi orðið milli leikmannsins og hópsins í Lengjubikarleik gegn ÍA. Gylfi bar fyrirliðabandið í leiknum en Björn segir að með frammistöðu sinni hafi hann sýnt liðinu og félaginu vanvirðingu.

Pistilinn má sjá hér að neðan í heild.



Kæru Valsmenn.

Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum samþykktum við í stjórn knattspyrnudeildar tilboð sem bárust í Gylfa Þór Sigurðsson leikmann okkar í gær. Voru það tilboð frá bæði Víking Reykjavík og Breiðablik. Víkingur og Gylfi Þór náðu síðan saman um kaup og kjör og er því ljóst að Gylfi er ekki lengur leikmaður Vals.

Í tilefni þessa og þeirrar umræðu sem mun nú fara af stað teljum við mikilvægt að þið stuðningsmenn séuð upplýstir um okkar sjónarmið í málinu. Við gerum okkur grein fyrir því að þessi ákvörðun er umdeild og hún var ekki auðveld.

Mikilvægast er að hafa í huga að það er enginn leikmaður sem spilar fyrir Val stærri en félagið okkar. Valur er í okkar huga stærsta og sigursælasta íþróttafélag landsins sem státar af árangri sem öll önnur íþróttafélög landsins öfunda okkur af.

Þrátt fyrir áhuga annarra liða stóð ekki til að selja Gylfa Þór í vetur. Gylfi er frábær leikmaður og karakter og hefur verið frábær í alla staði eftir að hann kom til okkar.

Í síðustu viku fór af stað atburðarrás í kjölfar þess að Gylfi og hans fólk tjáðu okkur að hann vildi fara frá félaginu. Í kjölfarið sýndi Gylfi bæði liðsfélögum sínum og félaginu öllu mikla vanvirðingu með frammistöðu sinni þegar hann bar fyrirliðabandið í síðasta leik gegn ÍA. Það var ekki sá Gylfi sem við þekkjum. Það var mat stjórnar eftir samtöl við leikmenn og aðila í kringum hópinn að með þessari framkomu hefði orðið ákveðinn trúnaðarbrestur milli leikmannsins og hópsins.

Í okkar huga var því ekkert annað í stöðunni en að hámarka það sem félagið gat fengið fyrir leikmanninn. Í kjölfarið komu síðan tvö ásættanleg tilboð frá Breiðablik og Víking Reykjavík sem náði síðan samkomulagi við Gylfa eftir að við gáfum þeim leyfi til þess að ræða við leikmanninn.

Við teljum okkur vera með einn sterkasta hópinn í deildinni og það er afar mikilvægt að fjölga leikmínútum okkar leikmanna, sem hafa verið frá vegna meiðsla. Við höfum fengið flottar styrkingar inn í liðið í vetur og ætlum okkur að styrkja liðið frekar. Framundan er spennandi tímabil þar sem við erum m.a. í evrópukeppni og liðið hefur æft vel í vetur og leikmenn sem hafa verið frá eru að koma til baka.

Nú er það strákanna í liðinu, og okkar allra í Val, að snúa bökum saman og sýna fólki hversu öflugt félag við erum.
f.h. stjórnar knattspyrnudeildar Vals
Björn Steinar Jónsson

Athugasemdir
banner
banner
banner