Valur hefur krækt í miðjumanninn Tómas Bent Magnússon en hann kemur til félagsins frá ÍBV.
Tómas Bent er 22 ára gamall og skrifaði undir þriggja ára samning við Val í dag.
Hann hefur gegnt lykilhlutverki í liði Eyjamanna síðustu ár og var frábær er liðið vann Lengjudeildina í haust, en hann var valinn í lið ársins hér á Fótbolta.net
Miðjumaðurinn var nálægt því að ganga í raðir enska D-deildarliðsins Harrogate Town eftir tímabilið en fékk ekki atvinnuleyfi og var það Valur sem náði að krækja í þennan eftirsótta leikmann.
„Tómas hefur verið að æfa með okkur undanfarið og þjálfarateymið hefur hrifist mjög af frammistöðunni. Hann er leikmaður sem við teljum að muni styrkja hópinn okkar enda býr hann yfir hæfileikum sem öll alvöru lið þurfa. Það fer gott orð af honum og við sjáum það strax að þetta er strákur sem ætlar sér langt. Við munum gera það sem við getum til að hann nái sínum markmiðum á sama tíma og hann mun hjálpa okkur að verða enn betra lið,“ segir Björn Steinar Jónsson formaður knattspyrnudeildar Vals.
Tómas er uppalinn Eyjamaður og á að baki 81 leiki og 8 mörk í tveimur efstu deildunum. Hann á þá 12 leiki og 4 mörk með KFS, venslafélagi ÍBV.
Athugasemdir