mið 19. febrúar 2020 21:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Meistaradeildin: Leipzig og Atalanta í góðum málum
Timo Werner skoraði eina markið á heimavelli Tottenham í London.
Timo Werner skoraði eina markið á heimavelli Tottenham í London.
Mynd: Getty Images
Nagelsmann og Mourinho faðma hvorn annan fyrir leik.
Nagelsmann og Mourinho faðma hvorn annan fyrir leik.
Mynd: Getty Images
Atalanta vann 4-1 á San Siro.
Atalanta vann 4-1 á San Siro.
Mynd: Getty Images
RB Leipzig og Atalanta eru í góðum málum eftir leiki kvöldsins í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Leipzig, sem er í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, byrjaði leik sinn gegn Tottenham af miklum krafti og það var með hreinum ólíkindum að þeir skyldu ekki skora á fyrstu fimm mínútum leiksins.

Gestirnir voru sterkari aðilinn, en Hugo Lloris var vel á verði í marki Tottenham. Staðan í hálfleik var markalaus.

Eftir rúmar tíu mínútur í seinni hálfleiknum fékk Leipzig vítaspyrnu er Ben Davies braut af sér. Timo Werner fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Lloris fór í rétt horn, en átti samt ekki mikla möguleika á að verja.

Þegar líða fór á seinni hálfleikinn þá komst Tottenham meira inn í leikinn, en Leipzig gerði ágætlega í að verja mark sitt. Tottenham náði ekki að jafna metin og lokatölur í höfuðborg Englands, 1-0 fyrir Leipzig. Þýska félagið fer því heim með útivallarmark og forystu fyrir síðari leikinn sem fer fram í næsta mánuði.

Atalanta lék á als oddi
Í hinum leik kvöldsins lék Atalanta, markahæsta lið ítölsku úrvalsdeildarinnar, á als oddi gegn Valencia. Leikurinn var heimaleikur Atalanta en var spilaður á San Siro í Mílanó þar sem heimavöllur Atalanta uppfyllir ekki skilyrði UEFA.

Atalanta lét það ekki trufla sig og skoraði Hans Hateboer fyrsta mark Atalanta á 16. mínútu. Josip Ilicic skoraði annað markið fyrir leikhlé og staðan 2-0 í hálfleik.

Atalanta hélt áfram í seinni hálfleiknum og bætti Remo Freuler við þriðja markinu á 57. mínútu áður en Hateboer skoraði sitt annað mark.

Denis Cheryshev klóraði í bakkann fyrir Valencia á 66. mínútu, en lengra komust Spánverjarnir ekki. Það vantaði marga leikmenn í lið Valencia í kvöld og þeir sáu ekki mikið til sólar.

Atalanta 4 - 1 Valencia
1-0 Hans Hateboer ('16 )
2-0 Josip Ilicic ('42 )
3-0 Remo Freuler ('57 )
4-0 Hans Hateboer ('63 )
4-1 Denis Cheryshev ('66 )

Tottenham 0 - 1 RB Leipzig
0-1 Timo Werner ('58 , víti)
Athugasemdir
banner
banner
banner