Youssoufa Moukoko, framherji Borussia Dortmund í Þýskalandi, hefur ekki ákveðið hvort hann ætli sér að framlengja samning sinn við félagið eða róa á önnur mið.
Moukoko, sem fagnar 18 ára afmælisdegi sínum á morgun, er þegar búinn að spila 59 leiki fyrir aðallið Dortmund.
Hann var í aukahlutverki fyrstu tvö tímabilin en er nú fastamaður í liði Dortmund.
Á þessu tímabili hefur hann skorað sex mörk og lagt upp fjögur í fjórtán leikjum.
Samningur hans við Dortmund rennur út á næsta ári og er gríðarlegur áhugi á kappanum en hann hefur þó ekki gert upp hug sinn enn.
Barcelona, Liverpool, Paris Saint-Germain og Real Madrid eru öll á eftir leikmanninum.
„Ég mun taka ákvörðun á einhverjum tímapunkti. Ég finn fyrir trausti frá þjálfaranum og líður vel í Dortmund, en þið munuð komast að því á endanum hvort ég verði áfram eða ekki,“ sagði Moukoko.
Moukoko er í þýska landsliðshópnum sem mun spila á HM í Katar.
Athugasemdir