
Íslenska kvennalandsliðið spilar gríðarlega mikilvæga leiki í Þjóðadeildinni í upphafi næsta mánaðar en landsliðshópurinn fyrir verkefnið var tilkynntur á dögunum.
Ísland mætir Wales 1. desember og Danmörku 5. desember í síðustu tveimur leikjum sínum í Þjóðadeildinni. Báðir leikirnir fara fram ytra.
Sveindís Jane Jónsdóttir meiddist í fyrsta leik tímabilsins hjá Wolfsburg og hefur ekkert spilað síðan en Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari sagði á fréttamannafundi eftir að hópurinn var kynntur að hún muni líklega ekki spila meira á þessu ári.
„Varðandi Sveindísi, þá er töluvert í hana ennþá þó allt sé á réttri leið. Hún er komin á mun betri stað en hún var til dæmis í síðasta glugga. Hún er farin að skokka og eitthvað svoleiðis, hún er að nálgast og þetta er að gróa hægt og rólega,“ sagði Steini.
„Ég á ekkert endilega von á að hún spili með Wolfsburg fram að jólum. Þannig að ég held að stefnan sé sett á að hún verði klár að spila með þeim í janúar og verði komin á fullt í janúar."
Þá eru Svava Rós Guðmundsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir ekki heldur með vegna meiðsla en Svava fór úr mjaðmalið í október og Cecilía hefur verið lengi frá vegna hnémeiðsla.
„Svava Rós á hins vegar langt í land. Hún er ennþá í hægu bataferli og það eru ekki komin nákvæm tímamörk á það, það er tekið viku fyrir viku. Vonandi heldur þetta áfram að lagast svo það þurfi ekki að fara í inngrip og gera smávægilega aðgerð á henni," sagði Steini.
„Sama á við um Cecilíu. Hún er í endurhæfingu úti í Munchen og það er allt samkvæmt áætlun þar. Ég held að við séum að horfa á hana í mars, apríl eða maí."