Jorge Sampaoli, fyrrum þjálfari Marseille og argentínska landsliðsins, gagnrýndi spilamennsku Frakklands á Evrópumótinu, en hann skaut þar sérstaklega á Ousmane Dembele og Kylian Mbappe.
Frakkar duttu út í undanúrslitum mótsins. Sóknarleikurinn var hugmyndasnauður og skoraði liðið aðeins eitt mark úr opnum leik á öllu mótinu.
Sampaoli var ekki hrifinn af Frökkum og kom þar sérstaklega inn á eigingirni ákveðinna leikmanna.
„Þegar allt fer til fjandans þá eru hinir leikmennirnir eins og áhorfendur að fylgjast með því hvernig sóknin endar. Þeir vita að hann spilar eins og einhverf manneskja. Hann hefur sóknina og lýkur henni sjálfur,“ sagði Sampaoli um Ousmane Dembele.
Undarleg ummæli hjá Argentínumanninum sem sagði Kylian Mbappe svipaðan.
„Hann hefur ekki getuna til þess að láta liðsfélaga sína skína og veit aðeins hvernig hann sjálfur getur skinið. Mbappe er eiginlega alveg eins.“
Sampaoli hélt áfram að ræða Frakkland og sagðist ekki hrifinn af því hvernig þeir spila sem heild.
„Frakkland er með ótrúlegt lið en þeir þurfa að hlaupa mikið og þegar svæðin eru lítil þá geta þeir ekki fundið sóknarleiðir þrátt fyrir ótrúleg einstaklingsgæði. Þegar það vantar menn sem eru góðir í að senda og búa til spil þá treystir liðið aðeins á góða frammistöðu frá sóknarsinnuðu leikmönnunum. Það er ekki mín hugsjón á fótbolta,“ sagði hann ennfremur.
Athugasemdir