Líklegra að Nunez verði seldur frá Liverpool - Wharton einn af þeim sem eru orðaðir við Man Utd - City á leið í endurbyggingu - Newcastle til í...
   fös 21. febrúar 2025 11:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Heimir ræðir stöðuna í FH, úrslit vetrarins og leikmannamál
'Þetta er búið að leysast þannig að við lítum bara bjartir fram veginn'
'Þetta er búið að leysast þannig að við lítum bara bjartir fram veginn'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kjartan Kári er ánægður hjá FH að sögn Heimis.
Kjartan Kári er ánægður hjá FH að sögn Heimis.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Stefnan er sett á topp sex.
Stefnan er sett á topp sex.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Davíð hefur verið tíðrætt um að FH vilji vera með ungt og spennandi lið þar sem uppaldir leikmenn fái tækifæri.
Davíð hefur verið tíðrætt um að FH vilji vera með ungt og spennandi lið þar sem uppaldir leikmenn fái tækifæri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Teymi sem nær vel saman.
Teymi sem nær vel saman.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Menn verða að líta í eigin barm eftir tapið gegn Aftureldingu.
Menn verða að líta í eigin barm eftir tapið gegn Aftureldingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH endaði í 6. sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili, liðið komst í efri hlutann fyrir tvískiptingu en úrslitin í síðustu fimm leikjunum voru ekki góð. Frá síðasta tímabili eru lykilmenn eins og Logi Hrafn Róbertsson og Ólafur Guðmundsson farnir frá félaginu.

FH hefur sótt nokkra leikmenn í vetur en þó engan miðvörð. Fótbolti.net ræddi við Heimi Guðjónsson, þjálfara FH, um stöðuna á liðinu þegar einn og hálfur mánuður er í Íslandsmót.

Ekkert launungarmál að það vantar hafsent
„Ég held að staðan sé allt í lagi, við erum búnir að missa sterka pósta úr liðinu og erum að reyna fylla í þau skörð. Við fengum m.a. núna Tómas Orra Róbertsson sem hefur verið að æfa með okkur, hann hefur verið mjög öflugur og við bindum miklar vonir við hann. Svo er ekkert launungarmál að við þurfum að fá hafsent. Við erum að leita að honum, eins og alltaf þá viljum við vanda til verka og fá góðan leikmann," segir Heimir.

Búið að leysa Skessumálið
Hefur Skessumálið [varðar eignarhald og framkvæmd á knatthúsi FH-inga, Skessunni] sett strik í reikninginn varðandi komu nýrra leikmanna; hversu hægt hefur gengið að ná í leikmenn?

„Það er ekki gott að vera með svona mál yfir hausnum á sér þó að það hafi ekki áhrif á þjálfara og leikmenn, þá er þetta þannig að þú vilt fá leikmennina sem fyrst og út af þessu máli höfum við þurft að bíða aðeins. Það er aldrei gott. En þetta er búið að leysast þannig að við lítum bara bjartir fram veginn."

Hljóta að líta í eigin barm eftir leikinn gegn Aftureldingu
FH tapaði gegn Lengjudeildarliði ÍR í fyrstu umferð Lengjubikarsins og svo illa gegn Aftureldingu í síðustu viku. Lokatölur þá voru 3-6 en Afturelding komst í 0-6 í leiknum. Ertu að spá mikið í þessum úrslitum?

„Auðvitað er undirbúningstímabil oft, eins og ég hef oft sagt, upp og niður, spilar stundum góða leiki og stundum slaka leiki, menn eru í misjöfnum prógrömmum; búið að æfa mikið og þungt. En ég held að allir sem tóku þátt í þessum leik á móti Aftureldingu hljóti að líta í eigin barm og hugsa með sér að þetta getur ekki átt að vera svona og menn þurfa aðeins að stíga upp."

Væri til í mann sem getur leyst sóknarstöðurnar
Þú talar um að það vanti hafsent, er eitthvað annað sem þú sérð að þú vilt styrkja fyrir mót?

„Í fullkomnum heimi væri ég alveg til í að fá einhvern sem getur leyst fremstu stöðurnar, en það eru að koma upp efnilegir strákar og eins og yfirmaður fótboltamála (Davíð Þór Viðarsson) hefur sagt þá verðum við að hlúa að þeim og gefa þeim einhvern spiltíma svo þeir þroskist og þróist. Við erum líta í það að við getum verið að virkja þessa yngri leikmenn."

Markmið áfram að komast í topp sex
Segjum að það komi inn hafsent fyrir mót, hvaða vonir geta stuðningsmenn FH gert sér fyrir tímabilið?

„Núna er febrúar, svo kemur apríl. Þetta á eftir að mótast. Síðustu tvö ár höfum við gert okkur vonir um að komast í topp sex og það er alltaf markmið. Það er ekkert að fara breytast núna þó svo að við höfum misst einhverja pósta úr liðinu. Markmið FH, sem er risastór og flottur klúbbur, þar vilja menn komast sem hæst."

„Nema að það komi eitthvað fáránlegt tilboð"
Þú getur kannski ekki spáð alltof mikið í hvað önnur félög eru að gera en sagan segir að Víkingar séu ansi líklegir í að reyna við Kjartan Kára Halldórsson ef Ari Sigurpálsson verður seldur út. Er þetta eitthvað sem þú spáir í?

„Þetta er náttúrulega á könnu yfirmanns fótboltamála. Auðvitað eru Víkingar búnir að bjóða í hann en Kjartan Kári er ánægður hjá FH, kemur heim úr atvinnumennsku; fyrsta árið var svolítið upp og niður og svo var hann frábær á síðasta ári. Hann er gríðarlega öflugur leikmaður. Ég held að við náum að halda honum, ekki nema að það komi bara eitthvað fáránlegt tilboð."

Tvö langbest mönnuðu lið deildarinnar
Hvernig finnst þér landslagið í deildinni í dag, hvaða lið verða að berjast á toppnum?

„Ef þú lítur á þetta blákalt þá ertu með Víking og Breiðablik sem eru langbest mönnuðu liðin. Eins og hefur komið fram í fjölmiðlum og annars staðar þá held ég að þessi tvö lið muni keppast um þetta, held að hin liðin séu svolítið á eftir. Víkingur stóð sig núna frábærlega í Sambandsdeildinni og Breiðablik 2023, það á bara að vera gulrót fyrir hin liðin að reyna komast þarna upp. Við í FH þekkjum þetta, við viljum ólmir komast þarna upp og þurfum að finna hugmyndafræðina sem hentar best."

Góður að setja pressu á menn
Setur þú pressu á Davíð og stjórnina að fá miðvörðinn sem allra allra fyrst?

„Já, auðvitað viljum við gera þetta sem fyrst. En eins og ég sagði þá viljum við vanda til verka. Ég er góður að setja pressu á menn og er alltaf að setja pressu á menn," sagði Heimir og er ekki laust við að það heyrðist smá hlátur í bakgrunni í lok setningarinnar.

Sama teymi
Er einhver breyting á þjálfarateyminu milli tímabila?

„Þetta er sama teymið, þekkjumst vel og vinnum vel saman. Við skiptumst á skoðunum og þetta hefur bara gengið vel. Það er engin breyting á því," segir Heimir.

Næsti leikur FH er gegn HK í Lengjubikarnum í kvöld. Fyrsti leikur FH í Bestu deildinni verður á útivelli gegn Stjörnunni þann 7. apríl.
Athugasemdir
banner