
Yasser Al Shahrani átti frábæran leik er Sádí-Arabía lagði Argentínu óvænt að velli á heimsmeistaramótinu í morgun.
Al Shahrani var virkilega góður í vinstri bakverði en HM er búið hjá honum eftir afar harkalegt samstuð við sinn eigin markvörð á 95. mínútu sigursins frækna.
Markvörðurinn Mohammed Al-Owais hljóp af marklínunni til að slá boltann úr vítateignum en hnjáaði liðsfélaga sinn afar harkalega í leiðinni.
Al Shahrani lyfti upp tveimur þumlum þegar hann var borinn af velli en honum leið alls ekki vel á þeirri stundu. Hann var færður á spítala og eftir sneiðmyndatöku kom í ljós að Al Shahrani er kjálkabrotinn og þarf neyðaraðgerð vegna innvortis blæðinga.
Mohammed bin Salman, afar umdeildur krónprins og forsætisráðherra Sádí-Arabíu, skipaði að leikmaðurinn yrði strax sendur með sjúkraflugi til Þýskalands þar sem aðgerðin verður framkvæmd.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá atvikið. Það er ekki fyrir viðkvæma.