West Ham United hefur boðið skoska stjóranum David Moyes nýjan samning en hann greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag.
Moyes vann Sambandsdeild Evrópu með West Ham á síðustu leiktíð, en það var fyrsti Evróputitill félagsins síðan 1999 er liðið vann Inter-Toto keppnina.
Liðið hafnaði þá í 14. sæti deildarinnar en liðið situr nú í 9. sæti og er komið í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar.
Stjórinn er með samningstilboð frá West Ham en hann mun ekki taka ákvörðun fyrr en eftir tímabilið.
„Ég hef átt mjög góð samtöl með eigendunum, David Sullivan og Karren Brady,“ sagði Moyes.
„Það er samningur á borðinu fyrir mig en ég ákvað að bíða með að svara þangað til eftir tímabilið,“ sagði hann enn fremur.
Stuðningsmenn West Ham voru með skilti og fána á leik liðsins gegn Nottingham Forest en á honum stóð 'Moyes Out'. West Ham tapaði leiknum 2-0
West Ham er án sigurs í síðustu átta leikjum sínum.
Athugasemdir