Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 23. ágúst 2021 23:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Berglind Björg: Samtalið við PSG var komið langt
Ég er mjög spennt að sjá hvernig ég passa inn í þessa deild
Ég er mjög spennt að sjá hvernig ég passa inn í þessa deild
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru hlutir sem við réðum ekki við sem höfðu áhrif
Það voru hlutir sem við réðum ekki við sem höfðu áhrif
Mynd: Le Havre
Hammarby er einn stærsti klúbburinn og stuðningsmennirnir eru alveg ótrúlegir!
Hammarby er einn stærsti klúbburinn og stuðningsmennirnir eru alveg ótrúlegir!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Berglind Björg Þorvaldsdóttir er gengin í raðir Hammarby í sænsku kvennadeildinni. Hún kemur til liðsins eftir eitt tímabil með Le Havre í Frakklandi. Le Havre endaði í neðsta sæti frönsku deildarinnar síðasta vetur á meðan Hammarby fór upp úr næstefstu deild í Svíþjóð.

Berglind er 29 ára sóknarkona sem á að baki 52 landsleiki. Fótbolti.net ræddi við hana í síðustu viku um skiptin til Svíþjóðar. Hún hafði í sumar verið orðuð við Frakklandsmeistara PSG en þau skipti gengu eki upp.

Óljóst hvort Le Havre myndi falla
„Hammarby var búið að fylgjast með mér í dágóðan tíma og ég var búin að heyra af miklum áhuga frá þeim," sagði Berglind.

„Við vissum ekki hvað myndi gerast varðandi frönsku deildina, þá hverjir falla og ef það myndu einhverjir falla. Svo var tekin ákvörðun með það um miðjan júlí. Eftir að það var svo staðfest, þá var hægt að líta loksins í kringum sig."

Séð marga íslenska leikmenn blómstra
Hvað var það sem sannfærði þig í því að Hammarby væri rétt lið á þessum tímapunkti?

„Ég var búin að heyra nokkrum sinnum í þjálfaranum og leist vel á það sem þau eru að gera hérna. Þær eru búnar að spila gríðarlega vel á þessu tímabili og eru í þriðja sæti núna. Liðið spilar skemmtilegan sóknarbolta, pressa hátt og skora mikið af mörkum. Held að þeirra leikstíll muni henta mér ágætlega."

Hvernig líst þér á að spila í sænsku deildinni?

„Mér líst vel á að spila í sænsku deildinni. Hef fylgst með deildinni í mörg ár og séð marga íslenska leikmenn blómstra í þessari deild. Sænska deildin er sterk og rosalega jöfn. Ég er mjög spennt að sjá hvernig ég passa inn í þessa deild."

Stuðningsmennirnir alveg ótrúlegir
Umgjörðin í kringum félagið eitthvað sem heillaði?

„Umgjörðin í kringum félagið er ótrúlega góð. Hammarby er einn stærsti klúbburinn í Svíþjóð og ég veit að stuðningsmennirnir hérna eru alveg ótrúlegir!"

Hlutir sem við réðum ekki við
Það var búið að orða þig við PSG, hversu mikill var áhugi liðsins? Kom áhugi PSG þér á óvart?

„PSG voru búnir að hafa samband og samtalið var komið langt, en það voru hlutir sem við réðum ekki við sem höfðu áhrif. Þannig þetta gekk ekki upp núna. Þetta er fyrst og fremst bara algjör heiður að þeir vildu mig, og að vera orðuð við þennan stóra klúbb er frábær viðurkenning."

Vilja enda í Meistaradeildinni
Hver eru markmið Hammarby?

„Markmiðið er að tryggja sér sæti í meistaradeildinni og enda eins ofarlega og hægt er í deildinni. Vonandi get ég aðstoðað liðið að ná þeim markmiðum."

Það hefur komið fram að félagið hefur áður reynt að fá þig, hvenær var það og af hverju gekk það ekki upp?

„Já, þau voru búin að reyna áður að fá mig og það gekk ekki upp á þeim tímapunkti. Þjálfarinn hefur fylgst lengi með mér og veit hvernig leikmaður ég er. Þannig þegar þetta tækifæri kom upp núna, þá ákvað ég að kýla á það," sagði Berglind að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner