Ísak Snær Þorvaldsson hefur skoraði í síðustu þremur leikjum Breiðabliks og er alls kominn með fimm mörk í Bestu deildinni í sumar. Hann hefur spilað vel í leikjunum þremur og valdið miklum usla. Fótbolti.net ræddi við kappann í dag.
„Þegar maður nær inn einu marki, þá fær maður smá sjálfstraust. Ég er ekkert að spila mikið öðruvísi en ég gerði þar á undan. Þetta snýst um að halda stöðugleika og ekki gefast upp, hafa trúa á sjálfum sér. Mér finnst það vera lykilinn í þessu," segir Ísak.
Hann var að koma úr meiðslum þegar hann kom til Breiðabliks í vor og tók tíma að komast í toppstand. Svo missti hann úr leiki vegna höfuðmeiðsla.
„Það er náttúrulega mikilvægt að halda sér meiðslalausum sem er búið að vera vesen síðustu árin hjá mér. Særún (sjúkraþjálfari) er búin að gera mjög vel í því að hjálpa mér við að halda mér heilum."
Tenging sem hefur alltaf verið til staðar
Innkoma Davíðs Ingvarssonar hefur einnig hresst upp á sóknarleik Breiðabliks.
„Hann er náttúrulega mjög góður leikmaður, gerir mjög mikið fyrir liðið. Ég og hann náum mjög vel saman, það er einhver tenging okkar á milli sem hefur alltaf verið til staðar. Hann gerir mjög mikið fyrir liðið, hleypur endalaust; hættir aldrei."
Góðar líkur á Íslandsmeistaratitli
Breiðablik er með jafnmörg stig og Víkingur á toppi deildarinnar þegar átta umferðir eru eftir. Víkingar munu vera í talsvert meira leikjaálagi en Blikar það sem eftir lifir móts vegna bikarúrslitaleiks og Evrópuleikja.
„Mér finnst líkurnar á Íslandsmeistaratitli mjög góðar. Það er gamla góða klisjan, einbeiting á næsta leik hjá okkur og að hugsa um okkur sjálfa. Það er erfiður leikur uppi á Skaga, ÍA er búið að spila mjög vel og Skagamenn eru alltaf erfiðir upp á Skaga. Það verður ekkert auðvelt að ná sigri þar, en við gerum okkar besta."
Leið eins og heima hjá sér á Akranesi
Ísak lék með ÍA á láni seinni hluta tímabilsins 2020 og svo tímabilið 2021. Breiðablik heimsækir ÍA á sunnudaginn. Er öðruvísi að mæta ÍA heldur en öðru íslensku liði?
„Já, mér finnst ég alltaf vera að koma heim þegar ég fer upp á Skaga. Mér leið mjög vel þar og þar er mjög gott fólk. Ég á marga góða vini þar."
Þurftu að finna annan gír og hann fannst
Er öðruvísi taktur í Blikum eftir að liðið datt út úr Evrópu?
„Ekkert sem ég skynja sem tengist því að við féllum úr Evrópu. Mér fannst við bara sjálfir gefa í út af því að frammistaðan var ekki búinn að vera nægilega góð hjá okkur. Mér fannst við bara stíga upp sjálfir, því mér fannst við ekki hafa verið á okkar besta róli."
Seinni hálfleikur Blika gegn Stjörnunni fyrr í þessum mánuði var allt annar en fyrri hálfleikur liðsins í þeim leik. Gerðist eitthvað inni í klefa?
„Það var meira þannig að við vissum að við þyrftum að rífa okkur í gang. Ég veit ekki alveg hvað gerðist þarna í fyrri hálfleiknum, það bara gekk ekkert upp, náðum ekki sendingum á milli okkar. Við fórum inn í hálfleikinn og vissum að við þyrftum að finna annan gír. Þetta var alveg skelfilegur fyrri hálfleikur, en sem betur fer náðum við að rífa okkur í gang í seinni."
Blikar gerðu jafntefli í Garðabænum en í kjölfarið hafa fylgt sigrar gegn Val og svo Fram.
Vilji Ísaks að klára tímabilið í Kópavogi
Ísak er samningsbundinn Rosenborg í Noregi, var keyptur þangað eftir frábært tímabil með Breiðabliki árið 2022. Hann kom á láni frá norska félaginu. Félagaskiptaglugginn í Noregi lokar í næstu viku.
Voru einhver samtöl um að mögulega kalla þig til baka?
„Já, það hafa verið samskipti, bæði milli klúbbana og svo milli mín og þeirra, verið nóg af samskiptum. Mig langar að klára mótið hér og býst við því að klára mótið hér."
„Rosenborg vildi fá mig til baka í glugganum, en mér fannst ég ekki vera kominn í þann takt sem ég vildi vera í, og ákvað því að klára tímabilið hér."
„Þeir spurðu hvað ég vildi gera, ég sagði þeim það og fékk svo frá þeim að þeir vildu gera þetta (fá Ísak til baka). Þetta fór svona á milli og niðurstaðan varð sú að ég vildi vera hér og Rosenborg sagði já við því."
17 ára stjarna
Ísak fylgist vel með Rosenborg og gengi liðsins. „Ég horfi á alla leiki sem ég get. Þetta er búið að vera svolítið upp og niður hjá þeim, en liðið virðist vera að ná takti núna og er að spila vel. Vonandi gengur þeim bara sem best."
Sverre Nypan er 17 ára miðjumaður sem hefur verið að vekja athygli að undanförnu. Hann skoraði þrennu í sigri á Lilleström á miðvikudag.
„Það er fullt af stórum liðum sem eru að skoða hann, mjög eftirsóttur. Hann spilaði líka með okkur í fyrra, kom aðeins inn í hópinn 2022 og var svo með allt tímabilið í fyrra. Hann er eiginlega okkar aðalmaður, geggjaður leikmaður."
Stefnan hjá Ísaki er að klára þetta tímabil vel og ná svo góðu undirbúningstímabili með Rosenborg fyrir næsta tímabil.
„Markmiðið er bara að haldast heill og í formi, má eiginlega ekki slökkva á mér. Ég vil svo fara út og gefa allt í þetta þar," segir Ísak.
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Víkingur R. | 22 | 15 | 4 | 3 | 56 - 23 | +33 | 49 |
2. Breiðablik | 22 | 15 | 4 | 3 | 53 - 28 | +25 | 49 |
3. Valur | 22 | 11 | 5 | 6 | 53 - 33 | +20 | 38 |
4. ÍA | 22 | 10 | 4 | 8 | 41 - 31 | +10 | 34 |
5. Stjarnan | 22 | 10 | 4 | 8 | 40 - 35 | +5 | 34 |
6. FH | 22 | 9 | 6 | 7 | 39 - 38 | +1 | 33 |
7. Fram | 22 | 7 | 6 | 9 | 31 - 32 | -1 | 27 |
8. KA | 22 | 7 | 6 | 9 | 32 - 38 | -6 | 27 |
9. KR | 22 | 5 | 6 | 11 | 35 - 46 | -11 | 21 |
10. HK | 22 | 6 | 2 | 14 | 26 - 56 | -30 | 20 |
11. Vestri | 22 | 4 | 6 | 12 | 22 - 43 | -21 | 18 |
12. Fylkir | 22 | 4 | 5 | 13 | 26 - 51 | -25 | 17 |
Athugasemdir