José Mourinho, þjálfari AS Roma, tjáði sig um portúgalska miðjumanninn Renato Sanches á dögunum.
Roma fékk Sanches á lánssamningi frá Paris Saint-Germain með 15 milljón evru kaupskyldu ef ákveðnum skilyrðum verður mætt. Talið er að helsta skilyrðið sé að Sanches spili 60% leikja Roma á tímabilinu.
Sanches er 26 ára gamall og hefur aldrei tekið þátt í meira en 25 deildarleikjum á einu tímabili vegna stöðugra meiðsla. Hann hefur komið við hjá FC Bayern, Benfica, Swansea og Lille og reynir nú fyrir sér í ítalska boltanum.
„Hann er alltaf tæpur og það er erfitt að skilja hvers vegna hann er alltaf meiddur," sagði Mourinho við Sky á Ítalíu. „Þeir skilja þetta ekki hjá Bayern eða PSG og núna skiljum við það ekki heldur. Hann spilaði 45 mínútur á sunnudaginn, hvíldi í þrjá daga og meiddist svo eftir 27 mínútur."
Sanches átti góðan fyrri hálfleik í 7-0 stórsigri Roma gegn Empoli í ítölsku deildinni og skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið, en Mourinho tók hann útaf í leikhlé til að hvíla hann fyrir næsta leik sem var á útivelli gegn Sheriff Tiraspol í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Hæfileikar Sanches eru óumdeildir en hann kom við sögu í 27 leikjum með PSG á síðustu leiktíð og á 32 landsleiki að baki fyrir ógnarsterkt lið Portúgal.