Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
   mið 27. nóvember 2024 23:34
Brynjar Ingi Erluson
Ancelotti kallar eftir þolinmæði - „Liverpool verðskuldaði sigurinn“
Carlo Ancelotti
Carlo Ancelotti
Mynd: Getty Images
Kylian Mbappe hefur ekki náð sér á strik með Real Madrid
Kylian Mbappe hefur ekki náð sér á strik með Real Madrid
Mynd: Getty Images
Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, situr í heitu sæti eftir 2-0 tap liðsins gegn Liverpool í Meistaradeildinni í kvöld.

Framtíð Ancelotti hefur mikið verið rædd síðustu vikur og er talið að Real Madrid sé að íhuga að láta hann taka poka sinn og fá Santiago Solari til að stýra liðinu út tímabilið.

Evrópu- og Spánarmeistararnir eru í öðru sæti í La Liga og hafa þá aðeins unnið tvo leiki í Meistaradeildinni.

Þriðja tapði kom í kvöld gegn Liverpool en enska liðið var með algera yfirburði í leiknum.

„Liverpool verðskuldaði sigurinn. Við gerðum ágætlega í fyrri hálfleik, en gerðum nokkur mistök í úrslitasendingum. Liðið barðist vel fram að vítaspyrnunni. Við verðum að halda áfram á sömu braut, því þetta er leiðin fram á við. Þeir börðust aftur í kvöld,“ sagði Ancelotti.

Kylian Mbappe gekk í raðir Real Madrid frá PSG í sumar, en hann átti að taka liðið á næsta stig. Frammistaða hans hefur verið mikil vonbrigði og átti hann enn eina slöku frammistöðuna í kvöld.

„Þetta hefur margoft gerst með framherja sem eru í basli með að skora. Það er til meðal við þessu og það er að vera þolinmóður. Þetta er erfitt augnablik fyrir hann, en allir styðja við bakið á honum,“ sagði Ancelotti, en Mbappe fékk dauðafæri til að skora í leiknum er Real Madrid fékk vítaspyrnu, en Caoimhin Kelleher varði vítaspyrnuna frá Frakkanum.

„Það vantar kannski aðeins upp á sjálfstraustið. Hugmyndin er sú að þú þarft að spila einfalt þegar hlutirnir eru ekki að fara þér í hag. Það er er eins og með þetta augnablik, en þú getur ekki dæmt hann fyrir að klúðra vítinu. Allir leikmenn klúðra vítaspyrnum. Hann þarf bara að halda áfram að leggja hart að sér og við þurfum að vera þolinmóðir því hann er stórkostlegur leikmaður.“

Real Madrid er í 24. sæti með 6 stig í Meistaradeildinni, en það sæti er það síðasta sem gefur laust sæti í umspilið.

„Við þurfum að vera meðal 24 efstu og við munum ná því. Við munum berjast í Meistaradeildinni eins og við höfum gert síðustu ár.“

Enn bættist á meiðslalista Madrídinga er Eduardo Camavinga þurfti að koma af velli í síðari hálfleik en Ancelotti segist ekki hafa áhyggjur af stöðunni.

„Við lentum í svipuðum vandræðum á síðasta ári. Camavinga er kominn á meiðslalistann, en vonandi koma Rodrygo og Tchouameni inn i hópinn fyrir næsta leik. Við verðum að vera þolinmóðir,“ sagði Ancelotti í lokin.
Athugasemdir
banner
banner