Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 28. nóvember 2023 14:43
Hafliði Breiðfjörð
Cardiff, Wales
Sandra María spilar á Íslandi á næsta ári - Ákvörðun á næstu dögum
Sandra María á æfingu Íslands í morgun.
Sandra María á æfingu Íslands í morgun.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Frá æfingunni í Cardiff.
Frá æfingunni í Cardiff.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Ég ætla ekki að segja að öll félög hafi haft samband en það er búið að heyra í mér og það er mjög erfitt að ákveða hvað ég ætla að gera," sagði landsliðskonan Sandra María Jessen við Fótbolta.net fyrir æfingu Íslands í Cardiff í Wales í morgun.

Sandra María spilaði með Þór/KA í sumar og veltir nú fyrir sér hvar hún ætlar að spila á næsta tímabili. Hún er mjög eftirsótt og hefur úr nægum möguleikum að velja.

„Það er rosalega mikið undir hjá mér en það er auðvitað mjög gaman og forréttindi að hafa valmöguleika. Ég mun taka ákvörðun á næstu dögum held ég," sagði hún.

Sandra María hefur val um að vera áfram á Akureyri en auk þess hafði hún möguleika á höfuðborgarsvæðinu og erlendis frá. Hún útilokar nú að fara út.

„Það var allt í boði en eins og staðan er núna er best fyrir fjölskylduna mína að vera á Íslandi. Við munum því enda á Íslandi eins og staðan er núna en það er ennþá opið hvort það verði á höfuðborgarsvæðinu eða fyrir norðan. Nú eru bara síðustu dagarnir að vega og meta það sem skiptir máli og taka bestu ákvörðunina fyrir mig fótboltalega séð og fyrir fjölskylduna mína."

Hún hefur verið orðuð við Val, Breiðablik, Stjörnuna, Þrótt og fleiri félög, er síminn ekki búinn að vera á fullu?

„Jú það er búið að heyra mikið í mér og meira að segja lið sem ég átti ekki von á að heyra frá sem er rosalega gaman. Ég kann að meta það að fólk sýni áhuga, það er margt spennandi í boði."

„Það er ekki hægt að segja neitt eins mikið og mig langar til þess. Ég er sjálf ekki búin að taka ákvörðun en það kemur á næstu dögum og sennilega á meðan landsliðsverkefninu stendur."

Athugasemdir
banner
banner