Olise eftirsóttur - Sádi-Arabía til í að galopna veskið fyrir Van Dijk - Margir orðaðir við Man Utd
banner
   mið 29. maí 2024 11:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Svekktur að fá ekki kallið - „Veit ekki hvað ég get gert meira"
Var í landsliðshópnum í janúar en fékk ekki kallið núna.
Var í landsliðshópnum í janúar en fékk ekki kallið núna.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Ég veit ekki hvað ég get gert meira en að sýna það sem ég hef verið að gera'
'Ég veit ekki hvað ég get gert meira en að sýna það sem ég hef verið að gera'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Ég vissi alveg hvað ég þurfti að gera og náði tökum á því nokkuð fljótlega'
'Ég vissi alveg hvað ég þurfti að gera og náði tökum á því nokkuð fljótlega'
Mynd: Strömsgodset
'Ég er bara að fókusa á að spila einn leik í einu, einn úrslitaleikur í einu og spila vel í öllum leikjum'
'Ég er bara að fókusa á að spila einn leik í einu, einn úrslitaleikur í einu og spila vel í öllum leikjum'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Þegar ég fór frá Víkingi þá vissi ég að það yrði ekkert vesen hjá liðinu'
'Þegar ég fór frá Víkingi þá vissi ég að það yrði ekkert vesen hjá liðinu'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Karl Friðleifur Gunnarsson. 'Kalli er með aðra kosti sem eru að nýtast vel í þessari stöðu'
Karl Friðleifur Gunnarsson. 'Kalli er með aðra kosti sem eru að nýtast vel í þessari stöðu'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi Tómasson hefur byrjað tímabilið í norsku úrvalsdeildinni frábærlega, hefur lagt upp mörk og skorað sjálfur. Loga gengur vel og liðinu, Strömsgodset, líka. Lífið í Drammen er gott þessa dagana.

Fótbolti.net ræddi við leikmanninn í gær.

„Það eru 25°C alla daga hérna, maður spilar golf þegar maður getur. Þetta er í annað sinn núna þar sem er vika á milli leikja, búið að vera mikið af leikjum, búnir að spila á þriggja daga fresti frá því í byrjun apríl," sagði Logi aðspurður hvort hann væri eitthvað búinn að kíkja út á golfvöll. En að alvörunni, fótboltanum. Logi er mjög ánægður með byrjunina á tímabilinu.

„Ég er að spila eitt af mínum bestu tímabilum, er búinn að leggja upp þrjú mörk og skora eitt mark í 10 leikjum, í deild sem er töluvert erfiðari en sú íslenska. Ég held ég sé búinn að koma að næst flestum mörkum í deildinni og örugglega flestum sem vinstri bakvörður í deildinni."

„Þetta er stundum 'on/off' hjá okkur, en við erum nokkuð þétt lið. Við spilum fimm manna vörn og fáum fá færi á okkur. Við nýtum oft sénsana sem við fáum; erum stundum ekkert að vaða í færum en nýtum þau sem við fáum vel. Þetta er aðeins meira hark hérna úti heldur en þegar ég var í Víkingi."


Spilar miklu ofar en hjá Víkingi
Logi var keyptur til Strömsgodset frá Víkingi í ágúst í fyrra. Hann spilar sem vinstri vængbakvörður í liðinu sem er í 6. sæti norsku Eliteserien eftir 10 umferðir.

„Ég er að finna mig mjög vel í þessari stöðu, þetta er bara veisla. Ég fæ að fara svo ofarlega á völlinn, er mikið að krossa boltanum og mæti sjálfur inn í teig í seinni bylgjunni, fæ stundum bolta úti í teignum. Ég er miklu ofar heldur en ég var hjá Víkingi og er mjög ánægður með það. Eftir að hafa spilað þessa stöðu í tæpt ár þá er maður orðinn miklu betri í henni en maður var í byrjun, var ekkert vanur að spila í fimm manna vörn í byrjun. Það tók nokkra leiki að negla stöðuna almennilega. Ég vissi alveg hvað ég þurfti að gera og náði tökum á því nokkuð fljótlega."
   24.05.2024 12:36
Topp fimm - Svekktir að missa af landsliðsvalinu

Var að vonast eftir kallinu
Landsliðshópurinn fyrir vináttuleikina gegn Englandi og Hollandi var tilkynntur fyrir viku síðan. Logi má teljast nokkuð óheppinn að vera ekki í hópnum og hafa einhverjir furðað sig á því. Heldur þú að leikstaðan sé að hafa einhver áhrif í landsliðsvalinu?

„Ég veit það ekki, mögulega. Ég er náttúrulega ekki að spila vinstri bakvörð, en ég spilaði vinstri bakvörð áður en ég fór út og var að gera það mjög vel. Ég myndi ekki halda að það hafi áhrif, en maður veit ekkert hvað þjálfarinn er að hugsa."

Hvað hugsar þú þegar þú sérð landsliðshópinn? Ertu svekktur?

„Auðvitað. Ég er búinn að byrja tímabilið vel hérna í Noregi og var kannski að búast við kallinu. Ég er bara svekktur, en í staðinn fer ég í frí til Alicante. Það verður gott að fara frí. Ég er búinn að spila held ég 15 leiki á tveimur mánuðum, svo það er ekkert slæmt að fá frí, en auðvitað vill maður vera í landsliðinu, spila þar á móti Englandi og Hollandi, það hefði ekki verið slæmt. En svona er þetta."

Age Hareide valdi þá Guðmund Þórarinsson og Kolbein Birgi Finnsson í hópinn. Þegar þú sérð hópinn, hugsar þú að þú þurfir að sýna enn meira?

„Nei. Ég veit eiginlega ekki hvað ég get gert meira en að spila vel í liðinu sem ég er í. Við erum ekki stærsti klúbburinn í Noregi. Við enduðum í 7. sæti í fyrra sem var besti árangurinn síðan 2017. Ég kom til liðsins þegar það var í 10. sæti. Ég veit ekki hvað ég get gert meira en að sýna það sem ég hef verið að gera. Þetta er besta byrjun hjá Strömsgodset í deildinni í 10 ár. Ég er að er hafa mikil áhrif á liðið, ætla auðvitað ekki að taka allan heiðurinn sjálfur, en það hlýtur að hafa einhverja þýðingu að við vinnum nánast alla leiki eftir að ég kom og núna erum við að eiga okkar bestu byrjun í 10 ár."

Veit af áhuga annarra félaga en tekur einn leik i einu
Logi hefur vakið athygli fyrir frammistöðu sína og það er ljóst að félög utan Noregs eru að horfa til hans.

„Það er geggjað að sjá að það sé verið að taka eftir því að maður er að spila vel. Ég tek hvern leik sem úrslitaleik og er að ná að spila vel. Ég er fókusaður í þessu umhverfi hér úti, hef ekki mikinn tíma fyrir annað en fótbolta. Það er mjög gaman að það sé verið að taka eftir mér núna, mikið verið að ræða um mig."

Logi er meðvitaður um áhuga á sér. „Ég veit af áhuga, en ég vil ekkert vita of mikið. Glugginn opnar ekki strax og ég er ekkert að spá í því núna. Ég er bara að fókusa á að spila einn leik í einu, einn úrslitaleikur í einu og spila vel í öllum leikjum."

Logi fer ekki fram úr sér þegar hann ræðir um annarra félaga. „Ég veit að það er mikill áhugi á mér, en ég veit ekkert hvað gerist. Það er einn og hálfur mánuður þangað til glugginn opnar og hann er svo opinn út ágúst. Ef ég held áfram að spila vel þá gæti eitthvað gerst. Núna er einbeitingin á Godset."

Vissi að það yrði ekkert vesen á Víkingi
Logi var spurður út í hvort hann fylgdist vel með Víkingum í Bestu deildinni.

„Ég reyni að horfa á alla leiki. Ég er stundum að keppa á svipuðum tíma, en ég er ánægður með það sem ég hef séð."

„Þegar ég fór frá Víkingi þá vissi ég að það yrði ekkert vesen hjá liðinu. Það er búið að sýna sig síðustu ár að allir bestu leikmenn liðsins hafa verið að fara út en liðið hefur haldið dampi. Arnar Gunnlaugs er góður þjálfari, Sölvi með honum og Kári er líka að stjórna þessu. Allir í kringum liðið eru alveg með þetta."


Kalli flottur í vinstri bakverðinum
Karl Friðleifur Gunnarsson hefur mikið spilað sem vinstri bakvörður það sem af er móti.

„Það hefur ekki komið mér á óvart hvernig þeir hafa leyst stöðuna, Kalli er flottur í vinstri bakverðinum. Það er aðeins öðruvísi þegar þú ert ekki með örvfættan leikmann upp á fyrirgjafirnar, en Kalli er með aðra kosti sem eru að nýtast vel í þessari stöðu."

„Það kom mér ekki á óvart hvernig þeir hafa leysta þetta, það er erfitt að fá nógu góðan vinstri bakvörð á Íslandi inn í liðið,"
sagði Logi.
Athugasemdir
banner
banner
banner