
Jamie Carragher hefur miklar mætur á Jude Bellingham og býst við að ensku stórveldin muni keppast um hann með kjafti og klóm næsta sumar.
Bellingham er 19 ára miðjumaður sem hefur fest sig í sessi í byrjunarliði Borussia Dortmund og með enska A-landsliðinu þrátt fyrir ungan aldur.
„Ég held að Jude Bellingham verði eftirsóttur næsta sumar og ekki bara útaf fótboltahæfileikunum sem hann býr yfir. Hann er ungur leikmaður og ef þú kaupir hann þá gætirðu verið að tryggja þér framtíðarleikmann næstu 10 til 12 árin," sagði Carragher.
„Það er ekki bara Liverpool sem mun vilja hann heldur líka Man City og Man Utd og öll hin toppliðin. Hann er ótrúlega góður í fótbolta og getur orðið ennþá betri. Hann getur orðið næsti Kevin De Bruyne ensku úrvalsdeildarinnar og að mínu mati er De Bruyne besti leikmaður deildarinnar.
„Kannski hugsar City um hann sem arftaka fyrir De Bruyne, hjá Liverpool myndi hann bæta ákveðnum eiginleikum við miðjuna og hjá Man United myndi hann gjörbylta miðjunni. Ég held að allir vilji kaupa hann og það verður uppboð næsta sumar. Ég krosslegg fingur og vona að Liverpool vinni það kapphlaup."