Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 31. júlí 2020 14:30
Elvar Geir Magnússon
Skemmir ekkert að taka eitt tímabil í viðbót með Villa
Jack Grealish, fyrirliði Aston Villa.
Jack Grealish, fyrirliði Aston Villa.
Mynd: Getty Images
Andy Dunn, íþróttafréttamaður Mirror, telur að fyrirliðinn Jack Grealish verði áfram hjá Aston Villa á komandi tímabili.

„Það efast enginn um hæfileika Jack Grealish og þeir eiga heima í Meistaradeildinni en ekki í fallbaráttu," segir Dunn.

Hann segir að fyrir nokkrum vikum hafi hann ekki getað séð annað en Grealish myndi yfirgefa Villa, sama þó liðið myndi bjarga sér frá falli eða ekki. Í dag sé myndin öðruvísi.

„Manchester United var talinn líklegasti áfangastaðurinn en á Old Trafford er ljóst að Jadon Sancho er efstur á óskalistanum. Forgangsatriði Manchester City var alltaf að styrkja varnarleikinn og Englandsmeistarar Liverpool eru ólíklegir til að borga risaupphæð fyrir einstakling á næstunni," segir Dunn.

„Chelsea hefur þegar eytt miklu í sóknarþenkjandi leikmenn. Það er mögulegt að erlent félag banki á dyrnar en menn halda að sér höndum."

„Grealish er nægilega góður til að spila fyrir stórlið, það er klárt mál. Það hafa verið vandamál utan vallar en enginn efast um að Grealish leggur allt á sig í boltanum. Þó Aston Villa sé langt frá því að komast aftur í hóp bestu liða landsins þá er þetta stórt félag með ríka og metnaðarfulla eigendur."

„Grealish gæti sýnt enn betur karakter sinn með því að vera leiðtogi liðsins áfram á næsta tímabili, hjálpa liðinu að rífa sig úr fallbaráttunni. Sýna styrkleika sem fá Gareth Southgate til að taka hann með á EM á næsta ári."

„Grealish verður 25 ára í september og vill væntanlega ekki bíða lengi með að reyna sig meðal bestu liða Evrópu. Þar eiga þessir hæfileikar að vera en í ljósi stöðunnar þá mun eitt tímabil í viðbót hjá Villa ekki skemma neitt," segir Dunn.
Athugasemdir
banner