sun 31. júlí 2022 17:00
Brynjar Ingi Erluson
Gústi Gylfa um Brynjar Gauta: Ágætis samkomulag sem var gert
Brynjar Gauti í leik með Fram
Brynjar Gauti í leik með Fram
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Fram keypti Brynjar Gauta Guðjónsson frá Stjörnunni í byrjun júlí en það hefur mikið verið rætt og ritað um samkomulagið sem var gert á milli félagana en Brynjar fær ekki að spila gegn Stjörnunni í vikunni.

Brynjar, sem er þrítugur, var seldur til Fram þar sem hann var ekki að fá nægan spiltíma hjá Stjörnunni.

Félögin náðu saman um kaupverð og skrifaði Brynjar Gauti síðan undir tveggja ára samning við Framara.

Nýliðarnir sjá ekki eftir því enda hefur Brynjar verið klettur í vörn liðsins en hann fær þó ekki að spila gegn Stjörnunni í Bestu deildinni á miðvikudag í Úlfarsárdalnum þar sem félögin gerðu samkomulag um að hann fengi ekki að spila þann leik.

Margir hafa furðað sig á þessu samkomulagi og
telja að þetta ætti ekki að vera leyfilegt samkvæmt reglum deildarinnar.

Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, ræddi við Fótbolta.net í gær eftir 2-2 jafnteflið gegn Víkingi R. og sagðist ánægður með samkomulagið sem var gert.

„Mér finnst það ágætis samkomulag sem var gert. Ný kominn úr okkar umhverfi og þekkir okkur vel. Ég er sáttur við þetta samkomulag eins og það var gert."

„Það hefði verið gaman að mæta Brynjari Gauta. Það hefði verið skemmtilegt líka," sagði Ágúst um málið.
Gústi Gylfa: Hefði viljað hafa þennan leik á öðrum degi
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner