Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   þri 02. apríl 2024 16:56
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
FH að klára kaup á Ísaki Óla - Óvíst með Guðjón Pétur
Guðjón Pétur og Ísak í upphitun á föstudag.
Guðjón Pétur og Ísak í upphitun á föstudag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það mun koma í ljós núna á næstu dögum'
'Það mun koma í ljós núna á næstu dögum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þeir Ísak Óli Ólafsson og Guðjón Pétur Lýðsson voru í leikmannahópi FH þegar liðið mætti Stjörnunni í æfingaleik fyrir helgi. FH hefur verið í viðræðum við Esbjerg um að fá Ísak Óla í sínar raðir en samningur hans við danska félagið rennur út í sumar. Guðjón Pétur lék með Grindavík á síðasta tímabili en hefur verið samningslaus í vetur.

Fótbolti.net ræddi í dag við Davíð Þór Viðarsson um þá Ísak Óla og Guðjón Pétur. Davíð er yfirmaður fótboltamála hjá FH.

„Ísak Óli er nánast klár, eigum bara eftir að skrifa undir pappírana og fá leikheimild fyrir hann - sem gengur í gegn vonandi í vikunni. Hann ætti að vera klár í leikinn á mánudaginn," sagði Davíð. FH mætir Breiðabliki í fyrstu umferð Bestu deildarinnar á mánudagskvöld.

„Guðjón Pétur hefur verið að æfa með okkur og er búinn að standa sig nokkuð vel. Það á bara eftir að taka ákvörðun varðandi hann."

Liggur það hjá ykkur eða honum?

„Hjá báðum aðilum. Við höfum ekki ennþá tekið ákvörðun um hvort við munum bjóða honum samning og ég veit svo sem ekki alveg hvernig hans hugur liggur. Það mun koma í ljós núna á næstu dögum," sagði Davíð.

Ísak Óli er 23 ára miðvörður sem lék síðast á Íslandi sumarið 2021, þá á láni hjá Keflavík frá SönderjyskE. Hann á að baki tvo A-landsleiki. Guðjón Pétur er 36 ára miðjumaður sem hefur skorað 47 mörk í 226 leikjum í efstu deild. Hann lék síðast í Bestu deildinni fyrri hluta tímabilsins 2022 þegar hann var hjá ÍBV.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner