Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fös 02. júlí 2021 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Fáum öll verkefni í lífinu sem við þurfum að takast á við"
Sísí tók þátt í fyrstu átta leikjum Vals í sumar.
Sísí tók þátt í fyrstu átta leikjum Vals í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ef ég á að vera hreinskilin og opin, þá hefur mér ekki liðið vel bæði líkamlega og andlega.
Ef ég á að vera hreinskilin og opin, þá hefur mér ekki liðið vel bæði líkamlega og andlega.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sísí var fyrirliði FH í fyrra
Sísí var fyrirliði FH í fyrra
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sigríður Lára Garðarsdóttir, Sísí, skipti í gær yfir í FH frá Val. Sísí hafði í vetur skipt yfir í Val frá einmitt FH.

Hún er 27 ára gömul og hefur leikið með ÍBV, Lilleström, FH og Val á sínum ferli. Hún lék með meistaraflokki uppeldisfélagsins, ÍBV, á árunum 2009-2019 og var veturinn 2018-19 í Noregi. Sísí á þá tuttugu A-landsleiki að baki.

Félagaskiptin í gær vöktu athygli þar sem Sísí hafði komið við sögu í öllum leikjum Vals til þessa í sumar. Fótbolti.net hafði samband við Sísí í dag og spurði hana út í skiptin.

Hefur ekki verið opinská um veikindin
Hvernig kemur það til að þú ert komin í FH?

„Ég er alls ekki að fara frá Val í neinum leiðindum. Ef ég á að vera hreinskilin og opin, þá hefur mér ekki liðið vel bæði líkamlega og andlega. Ég glími við veikindi, sjúkdóm sem nefnist liðagigt og það hefur virkilega tekið á mig og hef ég verið ólík sjálfri mér undanfarið. Ég hef ekki verið opinská um veikindin og hann sést ekki á mér en kannski er mikilvægt að ég tali um það."

„Þeir sem þekkja mig þá er ég manneskja sem setur miklar kröfur á sig, vil alltaf æfa, stundum of mikið og ég tek allt á hörkunni. Mér finnst endalaust gaman að æfa og spila fótbolta en það hefur verið smá erfitt fyrir mig þegar líkaminn minn er ekki eins og hann á að vera,"
segir Sísí.

Setur heilsuna í forgang
„Ég tók því virkilega erfiða ákvörðun en á sama tíma skynsamlega ákvörðun að setja heilsuna í forgang því hún er það dýrmætasta sem við eigum. Ég þarf að fara að læra að hlusta á líkamann því það er margt annað sem býður mín þegar ferlinum mínum lýkur. Ég fann að ég þurfti að minnka álagið og mér fannst oft erfitt að standast kröfurnar sem maður þarf að vera á hæsta leveli í Val þótt ég gerði mitt allra besta til að vera það."

„Þjálfararnir Pétur og Eiður skilja ákvörðun mína og er ég mjög þakklát þeim og einnig yndislegu stelpunum í Val. Þetta hefur verið góður tími og er ég þakklát fyrir tímann minn í Val."


Heldur gigtinni niðri með lyfjum
Er þetta eitthvað sem þú hefur glímt við í lengri tima? Fer þetta versnandi?

„Það eru nokkur ár síðan ég greindist eða í lok árs 2017. Ég fer alltaf í lyfjameðferð í hverjum mánuði til að halda þessu niðri.
Ég veit ekki hvort þetta fari versnandi með tímanum en það spilar svo ótrúlega margt inn í, t.d. kuldi og álag."


Nærðu að vera sársaukalaus með því að taka þessi lyf? Há veikindin þér í daglegu lífi?

„Lyfjameðferðin og lyfin sem ég er á hjálpa mér mikið en það fylgja auðvitað einhverjar aukaverkanir. Dagarnir eru misjafnir en þetta er ekki að há mér almennt, ég get gert alla hluti sem ég vil gera en þarf bara að stýra álaginu."

Fáum öll verkefni sem þarf að takast á við
Ertu sátt við þessa niðurstöðu?

„Já, ég er það þótt þetta hafi verið ein af erfiðustu ákvörðunum sem ég hef tekið. Eins og gamall þjálfari minn sagði við mig, stundum þarf hugrekki til að mistakast alveg eins og það þarf hugrekki til að ná árangri. Við fáum öll einhver verkefni í lífinu sem við þurfum að takast á við. Ég trúi á að það sé einhver tilgangur með þeim og þau muni móta mann fyrir vikið."

Þykir vænt um FH
Kom annað til greina en FH?

Nei, svo sem ekki. Ég var þar í fyrra og mér leið ótrúlega vel í Krikanum. Það var hugsað mjög vel um mig og ég veit að þeir munu gera það áfram. Mér þykir ótrúlega vænt um félagið og ég mun gera mitt allra besta til að hjálpa FH, bæði inn á vellinum og utan þess," sagði Sísí.
Athugasemdir
banner
banner