Pep vill fá fyrrum leikmann Liverpool - Liverpool fylgist með tveimur Svíum - Grealish orðaður við Tottenham
   mið 03. janúar 2024 11:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Verður Gylfi með í umspilinu? - Ekki spilað í tvo mánuði
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi sneri aftur í landsliðið í október en hefur misst núna af tveimur gluggum í röð.
Gylfi sneri aftur í landsliðið í október en hefur misst núna af tveimur gluggum í röð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland fer í umspilið í mars.
Ísland fer í umspilið í mars.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var tilkynnt í morgun að Gylfi Þór Sigurðsson verði ekki með íslenska landsliðinu í vináttulandsleikjunum tveimur sem fara fram í Bandaríkjunum síðar í þessum mánuði.

Ísland mætir Gvatemala 13. janúar og Hondúras 17. janúar og fara báðir leikirnir fram á heimavelli Inter Miami í Bandaríkjunum.

Gylfi hefur dregið sig úr hópnum vegna meiðsla sem eru að hrjá hann. Gylfi sneri aftur á völlinn í haust eftir ríflega tveggja ára fjarveru en síðasti fótboltaleikur sem hann spilaði var í byrjun nóvember.

Gylfi, sem er einn besti landsliðsmaður Íslandssögunnar, sneri aftur í landsliðið fyrir gluggann í október og bætti þá markametið er hann skoraði tvisvar í þægilegum sigri gegn Liechtenstein.

Aðalmarkmiðið með endurkomunni - í augum landsliðsþjálfarans Age Hareide - var að Gylfi myndi svo hjálpa liðinu að komast á lokakeppni EM næsta sumar.

Það að Gylfi sé að missa af þessum leikjum er áhyggjuefni og vekur upp spurningar um það hvernig staða hans verður þegar mars gengur í garð.

Gylfi var frábær í síðasta umspili
Ísland mætir Ísrael í undanúrslitum umspilsins fyrir Evrópumótið í mars. Strákarnir okkar drógust í B-umspilið.

Ef við vinnum Ísrael í undanúrslitaeinvíginu þá mætum við annað hvort Bosníu eða Úkraínu í úrslitaleiknum. Úkraínumenn voru dregnir í B-leiðina en þeir hefðu líka getað farið í A-leiðina.

Undanúrslitin fara fram 21. mars og úrslitaleikurinn fer fram 26. mars.

Ísland fór líka í svona umspil fyrir EM 2020 og mætti þar Rúmeníu í undanúrslitum. Þar skoraði Gylfi bæði mörkin í 2-1 sigri. Ísland tapaði svo í úrslitaleiknum gegn Ungverjalandi en Gylfi skoraði þar mark Íslands líka.

Að hafa Gylfa í góðu formi, jafnvel allt í lagi formi, í mars væri svo sannarlega frábært en hvort það gerist er annað mál.

Spilar mögulega í fimm keppnisleikjum
Í nóvember var sagt frá því að Gylfi væri að glíma við álagsmeiðsli en það er eflaust ekki auðvelt að koma til baka eftir að hafa ekkert spilað í ríflega tvö ár. Gylfi hafði byrjað fimm leiki í röð með félagsliði og landsliði þegar Lyngby mætti Vejle 12. nóvember. Þá var hann ekki í leikmannahópi liðsins. Síðan þá hefur hann ekkert spilað.

Danska úrvalsdeildin er núna í vetrarfríi og mun Lyngby spila æfingaleiki á næstu vikum. Danska deildin byrjar svo aftur um miðjan febrúar en Lyngby á eftir að spila fimm keppnisleiki áður en kemur að umspilinu.

Það er vonandi fyrir íslenska landsliðið að Gylfi mæti af krafti í þá leiki sem Lyngby á í dönsku úrvalsdeildinni í febrúar og mars, þannig að hann verði á flottum stað líkamlega þegar Ísland spilar mikilvægan leik, og vonandi leiki, í mars.
Athugasemdir
banner
banner