Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
   fim 05. apríl 2018 16:12
Magnús Már Einarsson
Viðar Ari: Heiður að taka við stöðunni af svila mínum
Viðar Ari í leik með Fjölni gegn FH.  Hann mun nú spila með FH í sumar.
Viðar Ari í leik með Fjölni gegn FH. Hann mun nú spila með FH í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Ari á landsliðsæfingu.  Hann á fimm landsleiki að baki.
Viðar Ari á landsliðsæfingu. Hann á fimm landsleiki að baki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég var búinn að heyra áhuga og fannst þetta var góður kostur þar sem ég er búinn að vera inn og út úr liðinu hjá Brann. FH er toppklúbbur og ég hlakka til að vinna með Óla (Kristjánssyni, þjálfara)," sagði Viðar Ari Jónsson við Fótbolta.net í dag en hann er kominn til FH á láni frá Brann í Noregi.

Viðar Ari kemur til Íslands um helgina og nær síðustu æfingaleikjum FH áður en Pepsi-deildin hefst. Hann er mjög spenntur fyrir því að spila í Hafnarfirði í sumar.

„Það er þvílíkur heiður að taka við af hægri bakverðinum á síðasta tímabili, svila mínum Jóni Ragnari Jónssyni. Hann er kampakátur með þetta og þó að ég segi sjálfur frá þá held ég að hann gæti ekki fengið betri eftirmann. Hann var reyndar búinn að plana að kíkja í heimsókn hingað út til Bergen, það var eini skellurinn við þetta. Við tökum grill heima í staðinn eða eitthvað," sagði Viðar léttur.

Hugsaði um að fara í Fjölni
Viðar lék með Fjölni áður en Brann keypti hann í fyrravetur. Kom ekki til greina að fara aftur í Fjölni núna?

„Auðvitað hugsaði ég um það. Manni langaði lúmskt að spila með FH þegar ég var að spila heima. Auðvitað kom Fjölnir til greina en FH varð fyrir valinu. Ég skila samt miklum Fjölniskveðjum, svo það sé á hreinu," sagði Viðar sem mætir sínum gömlu félögum úr Grafarvogi þann 13. maí í þriðju umferðinni.

„Það verður skrýtið en samt meira gaman. Ég hlakka til. Mikið af þessum drengjum sem ég spilaði með eru í Fjölni."

Hefur bætt sig í Noregi
Þrátt fyrir að hafa ekki átt fast sæti í liðinu hjá Brann þá segist Viðar hafa grætt mikið á dvölinni í Noregi hingað til.

„Ég er búinn að læra rosalega mikið og bæta mig mikið. Þó að ég segi sjálfur frá þá er ég í hörkuformi. Ég held að ég hafi aldrei verið í eins góðu formi og núna. Mér líður mjög vel og er mjög spenntur að koma heim og sýna það að ég hafi bætt mig."

Viðar verður á láni hjá FH til 23. júlí en á þeim tíma ætti hægri bakvörðurinn Cedric D'Ulivo að vera klár eftir meiðsli. Viðar fer þá aftur út til Brann.

„Ég stefni á að fara aftur út þá og vera vonandi í ennþá betra formi en ég er í núna. Þá vil ég setja pressu á það úti að fá að spila reglulega," sagði Viðar að lokum.
Athugasemdir
banner