Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
banner
   sun 05. júlí 2020 22:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kiddi Jak telur rauðu spjöldin eiga rétt á sér - Víkingar „rændir" víti
Rauða spjaldið fór þrisvar á loft á Meistaravöllum í gær.
Rauða spjaldið fór þrisvar á loft á Meistaravöllum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristinn Jakobsson, fyrrum dómari, var til tals í íþróttafréttum RÚV í kvöld til þess að ræða um leikinn ótrúlega á Meistaravöllum í gær.

KR vann Víkinga 2-0, en þrír leikmenn Víkings fengu að líta rauða spjaldið í leiknum. Kári Árnason fékk rautt eftir 25 mínútur, Sölvi Geir Ottesen eftir 78 mínútur og Halldór Smári Sigurðsson eftir 85 mínútur.

Kristinn telur að Helgi Mikael Jónasson hafi verið með tvö af þremur rauðu spjöldunum rétt.

„Samkvæmt bókinni er það hárrétt spjald. Brotið sem slíkt er ekki harkalegt en leikmaðurinn er kominn einn í gegn og Kári tekur í hann sem verður til þess að Kristján Flóki lætur sig falla niður á auðveldan hátt, en brotið er slíkt. Einn í gegn í upplögðu marktækifæri. Það er bara hreint og klárt rautt spjald í mínum huga og ég held að Helgi Mikael hafi gert rétt í því atviki," sagði Kristinn um rauða spjaldið sem Kári fékk.

Sölvi Geir fékk annað rauða spjaldið þegar hann slær Stefán Árna Geirsson í andlitið. Sölvi missti jafnvægið eftir að Pablo Punyed kom á ferðinni og ýtti við honum, en samt sem áður var það rautt spjald að mati Kristins.

„Hann slær til leikmanns KR í andlitið og mér fannst það alltaf vera klárt rautt spjald. Pablo fékk líka áminningu fyrir að hafa ýtt honum. Ég held að heildarniðurstaðan í því máli hafi verið rétt."

Honum fannst rauða spjaldið á Halldór Smára ekki rétt. „Ég held að hann hafi farið með mjög heiftarlegum hætti í þessa tæklingu og algjörlega að óþörfu. Því miður lendir hann illa í manninum og það er hægt að réttlæta að spjald. Í hita leiksins, miðað við hvernig leikurinn þróaðist og annað slíkt, þá hefði ég sem eftirlitsmaður verið sáttur við gult spjald."

Kristinn segir jafnframt að Víkingar hafi verið rændir vítapsyrnu undir lok fyrri hálfleiks þegar Kennie Chopart fór í andlit Nikolaj Hansen.

Viðtalið má sjá í heild sinni hérna.
Athugasemdir
banner
banner