Leikdagsstressið að aukast og það er jafnvel í meira mæli en oftast áður. Leikurinn gegn Úkraínu í kvöld er óhemju mikilvægur. Eftir sárt tap gegn Finnlandi, liði sem er einfaldlega slakara en við, er ekkert annað en þrjú stig sem koma til greina í kvöld.
Meðan maður horfir sífellt á klukkuna og bíður eftir leiknum er um að gera að rifja upp fyrri leikinn gegn Úkraínumönnum. Það er í raun og veru ekki flókin upprifjun því leikurinn var gríðarlega eftirminnilegur fyrir þá fáu aðila sem voru í stúkunni í Kænugarði og horfðu á 1-1 jafntefli.
Úkraínumenn voru í áhorfendabanni og aðeins starfsmenn og fjölmiðlamenn sem máttu vera viðstaddir leikinn, og það á ristastórum leikvangi sem innheldur yfir 70 þúsund sæti. Fjölmiðlamenn voru eins og krækiber í helvíti.
Steikt upplifun en ég og félagi minn, Guðmundur Hilmarsson á Morgunblaðinu, vorum þarna sessunautar og hlóðum í eina stutta útgáfu af Víkingaklappinu fyrir leik.
Það verður öðruvísi andrúmsloft í kvöld!
Þegar þú færð það hlutverk að fylgjast með áhorfendum þó þeir séu ekki til staðar. #fotboltinet pic.twitter.com/Yh472hyHdO
— Fótbolti.net (@Fotboltinet) September 5, 2016
Í leiknum sjálfum eru það fjögur atvik sem eru mér eftirminnilegust.
- Þegar við komumst yfir. Fyrsti leikurinn í undankeppninni og við settum tóninn strax eftir fimm mínútur. Alfreð kláraði vel úr þröngu færi.
- Jón Daði setti boltann yfir úr dauðafæri á 13. mínútu. „Úff, vonandi hugsar maður ekki um þetta færi svekktur eftir leik," hugsaði maður eftir færið. Því miður var það svo raunin.
- Jöfnunarmark Úkraínu á 41. mínútu. Yarmolenko. Mest pirrandi að við vorum 10 gegn 11 þegar markið var skorað eftir meiðsli Ara Freys. Ekki var búið að framkvæma skiptingu.
- Tilfinningarússíbaninn á 82. mínútu. Úkraína fékk víti. Hugur manns féll niður í svarthol. Konoplyanka skaut framhjá. „Við lítum á þetta sem stig unnið!"
Strákarnir okkar eru ákveðnir í að svara strax fyrir vonbrigðin gegn Finnlandi. Það má búast við dýrvitlausu íslensku liði í kvöld.
Ef það er eitthvað lið í heiminum sem kemur tvíeflt til baka eftir svona pirrandi leik, þá eru það okkar menn.
— G Gunnleifsson (@GGunnleifsson) September 2, 2017
Ein helsta umræðan fyrir leik er hvort Heimir haldi sig við sama kerfi og í síðustu tveimur leikjum eða fari aftur í gamla góða 4-4-2. Það hefur verið mjög umdeilt hvort það hafi verið rétt skrefið gegn Finnunum og margir sem vildu sjá okkur með tvo sóknarmenn á toppnum í þeim leik.
Við settum líklegt byrjunarlið Íslands upp í 4-4-2 fyrir leikinn gegn Úkraínu. Sem einlægur aðdáandi þessa kerfis vona ég að það verði raunin. Enda hefur árangurinn í kerfinu verið með mestu ágætum!
Það vakti athygli íþróttafréttamanna í Finnlandi að Sverrir Ingi Ingason var settur í spretti strax eftir leikinn. Óneitanlega velti maður því fyrir sér hvort Sverrir væri hugsaður sem byrjunarliðsmaður fyrir leikinn í kvöld.
Sama hvert kerfið verður og hvort einhverjar breytingar verði á byrjunarliðinu þá er mikilvægast að liðsandinn og karakterinn sem hefur einkennt liðið á þessum gjöfulu árum verði áberandi á Laugardalsvelli í kvöld.
Athugasemdir