Það er framundan lokaumferðin í Pepsi Max-deild kvenna. Það verða ekki sömu þjálfarar í öllum liðum á næstu leiktíð og verður áhugavert að sjá hvernig málin þróast.
Nú þegar hefur Alfreð Elías Jóhannsson að hann haldi ekki áfram með Selfoss.
Það var rætt um þjálfarahræringar hjá félögum í Pepsi Max-deild kvenna í síðasta þætti af Heimavellinum.
Hver er líklegur til að taka við Selfossi?
Það var spurt hver væri líklegur til að taka við Selfossi í ljósi þess að Alfreð er að stíga frá borði. Alfreð hefur verið orðaður við karlalið Grindavíkur.
„Það var bara eitt nafn sem kom upp í hugann á mér í tengslum við þetta starf. Það var Gunni Borgþórs. Hann þjálfaði þetta lið áður og fór með þær í bikarúrslit. Hann er yfirþjálfari í yngri flokkum þarna. Hann er augljósi kosturinn, en ég veit ekki hvort hann hafi áhuga á því sjálfur að fara aftur inn í þetta starf," sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson í Heimavellinum.
„Ég held að það væri sniðugt hjá Selfossi, að fá Gunna inn í þetta aftur," sagði Aníta Lísa Svansdóttir.
„Hann er allt í öllu þarna. Er ekki kominn tími á annan hring? Hann er líka alltaf ferskur," sagði Mist Rúnarsdóttir.
Margrét tilvalinn kostur ef Kjartan hættir
Fylkir féll úr Pepsi Max-deild kvenna um síðustu helgi og ljóst að liðið verður í Lengjudeildinni á næsta ári. Kjartan Stefánsson hætti með liðið fyrr í sumar en var sannfærður um að halda áfram. Það er búist við því að það verði nýr þjálfari í Árbænum á næsta tímabili.
„Ég efast um að Kjartan verði áfram með Fylkisliðið... ég ræddi við Kjartan eftir að þær töpuðu 5-1 á móti Val um verslunarmannahelgina. Hann sagði mér að hann hefði ákveðið að hætta sjálfur. Honum fannst þörf á breytingum en svo hefði stjórnin sannfært um hann að halda áfram. Mér finnst það skrítið fyrst hann var klár í að hætta, honum fannst best að hætta" sagði Guðmundur.
„Ef að Jón Steindór og Magga eru hvort sem er komin inn í teymið... en ég veit að - allavega þeir leikmenn sem ég þekki þarna - þær treysta Kjartani fyrir lífi sínu," sagði Mist.
„Ég held að þær kenni Kjartani ekki um það sem er búið að klikka," sagði Aníta Lísa.
Það var rætt um að ef Kjartan myndi stíga til hliðar eftir tímabilið, að þá yrði Margrét Magnúsdóttir yrði tilvalinn kostur í starfið. Hún er efnilegur þjálfari sem hefur verið í þjálfarateyminu hjá Fylki.
Annað í þessu
Það var einnig talað um það í þættinum hvort Ian Jeffs yrði áfram með ÍBV. Hann verður að velja á milli að vera aðstoðarþjálfari karlaliðsins eða aðalþjálfari kvennaliðsins; það er of mikið í báðum.
Verður Kjartan Guðmundsson áfram með Stjörnuna? Verður Eiður Ben Eiríksson áfram með Val? Það eru sögur um að Ásmundur Arnarsson sé að taka við Breiðabliki af Vilhjálmi Kára Haraldssyni. Verður Nik Chamberlain áfram með Þrótt? Það var jafnvel ýjað að því að Nik myndi fá símtal frá Selfossi í þættinum. Hann var spurður út í sína framtíð eftir síðasta leik Þróttar.
„Við erum að byggja upp eitthvað hérna. Við viljum byggja ofan á það sem við höfum verið að þróa. Það væri gaman að ná að brjóta sér leið inn að Meistaradeildarsætunum (efstu tveimur) á næstu árum. Það þarf margt að gerast til að það gangi upp," sagði Nik en Þróttur hefur átt mjög gott tímabil; liðið er í þriðja sæti og á leið í bikarúrslitaleik.
Viðtalið við Nik má sjá hér að neðan, og einnig er hægt að hlusta á Heimavöllinn.
Athugasemdir