„Ég veit ekki alveg hvernig staðan á honum er í dag. Þú þarft að tala við lækninn," sagði Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, í samtali við Fótbolta.net í gær er hann var spurður út í Gylfa Þór Sigurðsson.
Gylfi átti að fara með landsliðinu í æfingaferð til Bandaríkjanna í dag en þurfti að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.
Gylfi sneri aftur á völlinn í haust eftir ríflega tveggja ára fjarveru en en síðasti fótboltaleikur sem hann spilaði var í byrjun nóvember.
Gylfi, sem er einn besti landsliðsmaður sögunnar, sneri aftur í landsliðið fyrir gluggann í október og bætti þá markametið er hann skoraði tvisvar í þægilegum sigri gegn Liechtenstein. Aðalmarkmiðið með endurkomunni - í augum landsliðsþjálfarans Age Hareide - var að Gylfi myndi svo hjálpa liðinu að komast á lokakeppni EM næsta sumar.
Það að Gylfi sé að missa af ferðinni til Bandaríkjanna er áhyggjuefni og vekur upp spurningar um það hvernig staða hans verður þegar mars gengur í garð.
„Hann kemur ekki með okkur, því miður. Ég vonaði líka að Aron Einar myndi koma með okkur en hann er í endurhæfingu í Katar. Vonandi geta þeir nýtt næstu vikur í að koma sér í gott stand fyrir gluggann í mars," segir Hareide.
Gylfi og Aron hafa reynsluna af því að hjálpa Íslandi að komast á stórmót og þeir hafa reynsluna af því að spila með þeim. Það yrði gífurlega gott að hafa þá í verkefninu mikilvæga í mars þegar Ísland reynir að komast á lokakeppni EM.
„Ég hef alltaf áhyggjur af þeim, þangað til þeir eru komnir í fullkomið stand. Það besta er að þessir tveir leikmenn vilja virkilega spila fyrir Ísland og það er mjög mikilvægt þegar þú ert eldri og reynslumeiri leikmaður."
Athugasemdir