Real Madrid er enn á toppi spænsku deildarinnar þrátt fyrir tap gegn Espanyol og jafntefli gegn Atlético Madrid í síðustu tveimur umferðum.
Brasilíski kantmaðurinn Rodrygo hefur verið meðal betri leikmanna liðsins á tímabilinu. Í gær svaraði hann spurningum frá fréttamönnum og var meðal annars spurður út í orðrómana frá því í janúar og síðasta sumri sem sögðu ríkustu félög heims vera á höttunum eftir leikmanninum.
„Ég veit ekki mikið um þetta, allt svona fer í gegnum föður minn sem er umboðsmaðurinn minn. Ég veit ekki hvort Real Madrid hafi borist eitthvað tilboð en ég er himinlifandi með að vera áfram hérna," sagði Rodrygo. „Ég er hamingjusamur í Madríd og vil vera hérna í mörg ár."
Real Madrid heimsækir Manchester City í umspilsleik fyrir útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld og talaði Pep Guardiola um að Rodrygo væri hættulegasti leikmaður Madrídinga.
„Það er frábært hrós frá einum af bestu þjálfurum fótboltasögunnar! Að mínu mati er alltaf virkilega erfitt að spila gegn liðum sem hann þjálfar."
Carlo Ancelotti þjálfari Real Madrid svaraði einnig spurningum á fréttamannafundinum og ræddi meðal annars um Vinícius Júnior og Ballon d'Or verðlaunin sem hann hlaut ekki. Madrídingar neituðu að mæta á verðlaunaafhendingu Ballon d'Or útaf því að spænski miðjumaðurinn Rodri vann en Vinícius endaði í öðru sæti.
„Vinícius er að nálgast sitt besta form. Hann er búinn að skora 17 mörk á tímabilinu þrátt fyrir öll meiðslin," sagði Ancelotti og snéri sér svo að verðlaunaafhendingunni frá því í fyrra.
„Ég held ekki að þetta hafi verið röng ákvörðun. Þetta var ákvörðun sem við tókum útaf því að við töldum Vinícius Júnior vera réttmætan sigurvegara Ballon d'Or. Þess vegna vildum við ekki taka þátt.
„Þetta þýðir ekki að við berum ekki virðingu fyrir Rodri. Hann er stórkostlegur leikmaður og verðskuldaði að sigra Ballon d'Or kjörið ári fyrr heldur en hann gerði."
Athugasemdir