Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fim 13. júní 2019 16:03
Arnar Daði Arnarsson
Hannes meiddur - Kemst í giftinguna hjá Gylfa
Hannes Þór landsliðsmarkvörður.
Hannes Þór landsliðsmarkvörður.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór Halldórsson markvörður Vals verður ekki með liðinu í leiknum gegn ÍBV á laugardaginn vegna meiðsla sem hann hlaut í upphitun fyrir landsleik Íslands og Tyrklands á þriðjudaginn.

Þetta staðfesti hann í samtali við Fótbolta.net nú rétt í þessu en þá er óvissa með hvort hann leiki gegn KR í næstu viku.

Hannes fékk væga tognun í upphitun fyrir leikinn á þriðjudaginn og hefur verið stífur aftan í allri hægri hliðinni síðustu viku.

„Það small eitthvað aftan í, rétt áður en ég fór inn í klefa eftir upphitunina. Ég varð síðan aðeins verri í leiknum. Ég verð því ekki klár í næsta leik og í einhverja daga eftir sennilega," sagði Hannes sem segir það ekki hafa komið til greina að sleppa leiknum á þriðjudaginn stutt fyrir leik. Hann segir þetta vera fyrstu gráðu tognun í litlum vöðva aftan í lærinu.

„Eins og staðan var þegar þetta gerðist þá var ég ekki nógu slæmur til að sleppa einu né neinu. Ég var hinsvegar hræddur um að þetta myndi versna fyrst það er á annað borð kominn smá áverki þá getur það auðveldlega versnað. Ég hafði mestar áhyggjur að ég gæti ekki klárað leikinn en það kom aldrei annað til greina en að reyna láta reyna á þetta í leiknum og sem betur fer þá slapp ég í gegnum þetta í leiknum," sagði Hannes en óvissa er með hvort hann nái leiknum gegn KR í 9. umferð Pepsi Max-deildarinnar en sá leikur fer fram á miðvikudaginn í næstu viku.

„Það tekur oft viku til 10 daga að ná sér góðum eftir svona meiðsli. Ég veit ekki hvort ég nái leiknum á miðvikudaginn. Ég geri auðvitað allt sem ég get til að vera klár fyrir þann leik. Við erum að fara spila á mínum gamla heimavelli og það er leikur sem mig langar mikið að spila og þetta er mikilvægur leikur fyrir okkur. Ég mun gera allt sem hægt er til að ná þeim leik en það verður að koma í ljós," sagði Hannes.

Óli Jó leyfir honum að fara í brúðkaupið
Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson giftir sig um helgina á Ítalíu. Þar er Hannes einn af landsliðsmönnunum sem fengu boð í brúðkaupið. Allt leit út fyrir að Hannes kæmist ekki í brúðkaupið vegna leiks Vals gegn ÍBV.

Nú hafa hlutirnir hinsvegar breyst eftir meiðsli Hannesar og hefur Hannes fengið grænt ljóst frá Ólafi Jóhannessyni, þjálfara Vals að fara út til Ítalíu og nær því Hannes brúðkaupi Gylfa Þórs.

„Það stóð nú ekki til að fara en úr því að þetta gerðist þá settist ég niður með Óla og hann hvatti mig til þess að taka mér nokkra daga pásu og skella mér. Ég fæ nokkra daga off og ég get því fagnað þessu með Gylfa," sagði Hannes Þór markvörður Vals sem situr á botni Pepsi Max-deildarinnar með fjögur stig að loknum sjö leikjum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner