Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   sun 13. október 2024 19:12
Brynjar Ingi Erluson
Heimild: Vísir.is 
Leik Íslands og Tyrklands hugsanlega frestað
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leik Íslands og Tyrklands, sem á að fara fram á Laugardalsvelli annað kvöld, gæti mögulega verið frestað vegna frosts í jörðu, en þetta kemur fram á Vísi í kvöld.

Þjóðirnar eigast við í B-deild Þjóðadeildar Evrópu en eftirlitsmaður frá UEFA, fótboltasambandi Evrópu, fundaði ásamt stjórnarmönnum og vallarstarfsmönnum KSÍ síðdegis vegna ástandsins, en engin ákvörðun var tekin varðandi frestun.

Málið verður skoðað aftur í hádeginu á morgun og mun þá ákvörðun liggja fyrir en það gæti farið svo að landsleiknum verði frestað fram á þriðjudag.

Á þessum sérstaka skipulagsfundi verða eftirlitsmaður UEFA, fulltrúar frá knattspyrnusamböndum Íslands og Tyrklands ásamt lögreglu, en UEFA mun taka endanlega ákvörðun í málinu.

Samkvæmt veðurstofunni er spáð þriggja stiga frosti í Reykjavík í nótt, en Laugardalsvöllur er ekki upphitaður og því næmur fyrir frosti.

Íslenska landsliðið hefur ekkert hæft á Laugardalsvelli í þessu verkefni, en liðið hefur nýtt sér Hybrid-gras FH-inga í Kaplakrika og þá æfði tyrkneska landsliðið í Miðgarði í dag. Lið Wales æfði ekkert á Íslandi en liðið kom hingað til lands degi fyrir leikdag.

Þetta á að vera síðasti leikurinn sem spilaður er á Laugardalsvelli á þessu ári, en til stendur að leggja upphitunarkerfi og Hybrid-gras á næstunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner