Samantha Smith kom eins og stormsveipur inn í íslenskan fótbolta síðasta sumar. Hún spilaði fyrri hluta tímabilsins með FHL og var það nóg fyrir hana til að vera leikmaður ársins í Lengjudeildinni. Hún þurfti ekki meira en hálft tímabil til þess.
Hún spilaði seinni hlutann með Breiðabliki og hjálpaði Kópavogsfélaginu að taka Íslandsmeistaratitilinn.
Hún spilaði seinni hlutann með Breiðabliki og hjálpaði Kópavogsfélaginu að taka Íslandsmeistaratitilinn.
Samantha verður áfram með Breiðabliki í Bestu deildinni í sumar og verður það eflaust sérstakt fyrir leikmenn FHL að mæta henni eftir að hafa leikið með henni síðasta sumar. Hún á stóran þátt í því að FHL leikur í efstu deild í sumar.
Emma Hawkins lék líka með FHL síðasta sumar og endaði sem markadrottning Lengjudeildarinnar með 24 mörk í 14 leikjum. Hún leikur í dag í Portúgal.
Rósey Björgvinsdóttir og Bjarndís Diljá Birgisdóttir, leikmenn FHL, voru gestir í Niðurtalningunni á dögunum og voru þar spurðar út í Samönthu og Emmu. Hversu góðar eru þær?
„Þær eru bara ruglað góðar," sagði Rósey. „Þær geta spilað á hvaða stigi sem er. Það er ótrúlegt að Sammy sé enn á Íslandi."
„Við tókum æfingaleik við Víkinga úti í æfingaferðinni og gerðum 3-3 jafntefli þar. Við sáum þar hvað þær voru ruglaðar. Þær voru að fara illa með Víkingsvörnina."
FHL verður ekki með þessa frábæru leikmenn í sínum röðum í sumar. Er erfitt að missa Samönthu og Emmu?
„Það segir sig bara sjálft. Það er högg að missa þær. En það kemur maður í manns stað," sagði Rósey og bætti við að það verði nú ekki gaman að mæta Samönthu í sumar.
„Við mættum Sammy í Lengjubikarnum um daginn og það var ekki hægt að ná boltanum af henni," sagði Rósey.
„Maður var á æfingum með henni alla daga síðasta sumar og samt getur maður ekki náð boltanum af henni," sagði Bjarndís Diljá.
Athugasemdir